139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo innilega sammála hv. þingmanni um að fjölbreytnin eigi að ráða ríkjum. En hvaða fjölbreytni er það? Fjölbreytni sem hæstv. sjávarútvegsráðherra ræður hverju sinni. Það er fjölbreytnin af því að hið pólitíska afl á að ráða. Hið pólitíska afl á að ráða hverju sinni, það ræður sem hentar hverjum sjávarútvegsráðherra hverju sinni. Það hafa ekki sést frumvörp í áraraðir sem líta út eins og þau frumvörp sem lögð hafa verið fram af hæstv. sjávarútvegsráðherra varðandi valdheimildir til ráðherra.

Ég skil vel að stjórnarþingmenn vilji hafa hér mikla fjölbreytni ef það er á þeirra forsendum, ekki annarra. Það er eins og þingmenn stjórnarflokkanna hlusti ekki á það sem forustumenn okkar í sjávarútvegsmálum hafa sagt í gegnum tíðina. Þeir hafa einmitt komið með breytingar sem komið hafa til móts við gagnrýnisraddir og fyrir vikið hafa þeir að mínu mati hugsanlega farið út í of miklar breytingar á kerfinu sem ekki hafa stuðlað að nægilega mikilli arðbærni kerfisins. Af hverju byggðakvóti? Af hverju línuívilnanir? Allt er þetta gert á vakt okkar sjálfstæðismanna til að komast til móts við sjávarbyggðir landsins.

Það sem skiptir máli í þessu er að verið er að fara úr markaðsdrifnu kerfi sjávarútvegsins sem er arðbært. Þetta er eini sjávarútvegurinn sem vitað er um sem ekki er ríkisstyrktur. Þó að fækkað hafi í veiðum og vinnslu skilar klasinn sem slíkur, sjávarútvegurinn, meira í þjóðarbúið en hann hefur nokkurn tímann gert. Við fáum ekki aðeins meira fyrir hvert kíló af þorski í dag en fyrir 20 árum, það verða líka til störf í sprotafyrirtækjum í nýsköpunarfyrirtækjum og ég held að það séu góðar og jákvæðar afleiðingar þess kerfis sem byggt hefur verið upp.