139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:35]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Menn tala mikið um það að hér hafi engin tilraun verið gerð til þess að meta efnahagsleg áhrif af strandveiðum og byggðakvótum. Mér finnst menn gera fulllítið úr þeirri ágætu úttekt sem gerð var af Háskólasetri Vestfjarða veturinn 2009–2010 um samfélagsleg áhrif strandveiðanna á byggðirnar og sjávarplássin og flokksbróðir hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, bæjarstjórnarmaður á Ísafirði, sem stýrði því verki. Sú úttekt sem var vel unnin og vandvirknislega gerð byggði reyndar bara á þeim 3.400 eða 4.000 tonnum sem voru í strandveiðipottinum það árið, en sýndi engu að síður umtalsverð jákvæð áhrif sem sú tilraun sem þá var gerð og við erum að tala um að bæta og auka við núna, hafði einmitt á sjávarbyggðirnar, sérstaklega þær byggðir sem höfðu farið verst út úr núverandi kvótakerfi.

Þingmaðurinn bendir á að sjálfstæðismenn hafi tekið þátt í því að koma á byggðakvótum og spyr hvers vegna við séum að því. Við erum jú að reyna að bæta mönnum upp ýmislegt sem hefur orðið fyrir skerðingu. Það er nefnilega málið. Allar þessar plástraaðgerðir sem hefur verið gripið til á síðustu árum eru til þess að bæta fyrir skaðleg áhrif núverandi kvótakerfis. Þau skaðlegu áhrif sem hafa valdið þeirri gríðarlegu byggðaröskun sem við erum að verða vitni að, sem við sjáum m.a. í þorpum eins og Flateyri þar sem núna er 46% atvinnuleysi, bein afleiðing af kvótakerfinu ágæta sem sjálfstæðismenn standa svo dyggan vörð um og vilja að því er virðist ekki sjá neinar breytingar á.

Auðvitað verðum við að horfa á þetta mál af einhverju raunsæi. (Forseti hringir.) Það verða fleiri að fá þrifist í þessu landi en stórútgerðarmenn.