139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni viðbrögðin. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að í lögunum eins og þau eru í dag er gert ráð fyrir 4% hámarkseign í krókaaflamarkinu. Það eru 12% í stóra kerfinu, svo við höfum viðmiðunina. Þetta fyrirtæki sem um ræðir á Suðurnesjunum, þar sem er mesta atvinnuleysið, er ekki mjög stórt á mælikvarðann sem við tölum um, þetta er bara meðalstórt fjölskyldufyrirtæki. Mín skoðun er sú að það væri eðlilegra að taka þetta inn í heildarendurskoðunina á lögunum sem verður farið í í haust og fresta þessu gildistökuákvæði. Ég fagna því að hv. þingmaður deili þeirri skoðun með mér að það sé skynsamlegt að gera það. Eins og ég sagði er þetta bara meðalstórt fyrirtæki og ákvæðið snýr nánast að einu fyrirtæki sem var komið upp fyrir þessa prósentu þegar það var sett fyrst inn í lögin. Þetta væru ekki góð skilaboð á einmitt það svæði þar sem er mesta atvinnuleysið. Þá þyrfti þetta fyrirtæki að selja frá sér heimildir eitthvað annað og þá mundu enn aukast vandræði þessa svæðis. Mér hefur skilist á hv. þingmanni að hún vilji tala um reynsluna á öðrum stöðum í sambandi við það.