139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur verður tíðrætt um það að byggðunum blæði og það sé komið að einhverjum krítískum punkti. Það væri ágætt að fá upplýsingar um matið á því hvar hann liggur og sérstaklega með tilliti til þeirra breytinga sem leiða af þessu frumvarpi eins og það liggur hér fyrir, t.d. um það með hvaða hætti á að leggja inn í allar útgerðir þennan sameiginlega pott samkvæmt 2. gr. Hvaða mat hefur farið fram fyrir þessar krítísku byggðir og sjávarbyggðirnar á áhrifum reglu sem þar er innleidd og hvaða byggðir eru og kunna sérstaklega að vera í hættu vegna þess ákvæðis sem þar er um að ræða sem liggur fyrir að muni færa til heimildir milli fyrirtækja, milli landshluta o.s.frv.? Það væri ágætt að heyra hvar krítískustu punktarnir liggja í byggðum að þessu leytinu til, sérstaklega vegna þekkingar þingmannsins á því.