139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:05]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við getum reiknað okkur norður og niður. Við getum gert ótal úttektir og reiknað og reiknað. Það er vísasti vegurinn til að komast að fyrir fram gefinni niðurstöðu, að byrja bara að reikna, reikna hluti út af borðinu, reikna hluti inn á borðið o.s.frv.

Mikilvægasta vitneskjan sem við fáum er reynslan. Ég ætla að upplýsa hér að fátt hefur glatt mig meira í pólitík eftir að ég byrjaði sem stjórnmálamaður en að upplifa reynsluna af strandveiðunum þegar ég sá lífið færast í byggðirnar í mínu kjördæmi þar sem ég var á ferð sumarið 2009, karlana káta niðri á bryggju, spriklandi fisk í körum og lífið var komið í hafnirnar aftur í deyjandi byggðum. Það er þessi lífsneisti sem ég vil vernda og hlúa að. Það þarf engar hagfræðiúttektir til að segja mér það sem brjóstið finnur í þessu máli.