139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:32]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka að ég styð meginleiðirnar við þær breytingar sem hér eru í húfi, en það eru mörg atriði þarna inni sem ber að skoða betur og ég tel að taka eigi á í meðförum þingnefndar, þar á meðal það hvernig þeir sem hafa selt sig út úr greininni eru að komast aftur inn í hana. Ég lagði áherslu á það í ræðu minni að ég er tilbúinn að ganga jafnvel alla leið og taka fyrir það að menn geti komist aftur inn í greinina hugsanlega tímabundið, hugsanlega til eilífðarnóns, hafi þeir selt sig út úr greininni einu sinni, ég tala nú ekki um oftar.

Þetta þarf að taka fyrir í meðförum hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á komandi vikum og mánuðum. Ég hef sett mína digrustu fyrirvara við þetta atriði og eins hitt hvernig farið er með misjöfn fyrirtæki inni í hina samfélagslegu hlutdeildarsjóði. Þetta eru fyrirvarar mínir. Ég mun (Forseti hringir.) greiða atkvæði eftir þessu eins og síðar mun koma fram.