139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:43]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tala einmitt fyrir því að þeir þættir málsins sem eru kannski viðkvæmastir og kannski ófyrirséðastir, ef svo má segja, þurfi nánari skoðunar við. Þetta lýtur ekki síst að 2. gr. sem er að mörgu leyti ófullburða og ég er einfaldlega ósammála í grundvallaratriðum. Best færi á því að fresta gildistöku 2. gr. Ég hef sagt og ítreka þá skoðun mína að efnahagsleg áhrif hennar liggi ekki fyrir og þegar þessi grein er annars vegar getum við ekki farið fram með þeim hætti að skjóta fyrst og spyrja svo. Áhrif hennar, ef af verður, verða að mörgu leyti óafturkræf.

Hafandi sagt þetta trúi ég því hins vegar að ég og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sem komum úr sama kjördæmi þó það skipti í sjálfu sér ekki öllu máli í þessu efni, séum sammála um að grundvallarbreytingin varðandi hina samfélagslegu potta eigi að taka til bæði uppsjávarfisks og bolfisks. Það er reikningsstuðullinn, útfærslan og ójafnræðið sem fer í taugarnar á mér og ég er andvígur. Þess vegna tel ég að menn þurfi að staldra lengur og betur við þann part málsins því við getum ekki farið fram á hendur greininni með rangindum.

Ég er jafnaðarmaður og trúi því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sé það í eðli sínu líka þegar kemur að lagasetningu. Við verðum að koma að málinu með almennum hætti en ekki sértækum hætti sem bitnar meira á einu fyrirtæki en öðru. (Forseti hringir.)