139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:47]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ákall þjóðarinnar og ákall skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að við bætum vinnubrögðin. Auðvitað á Alþingi að taka sér tak í þessu efni sem öðru og endursenda eftir atvikum frumvörp heim í hérað. Ég get tekið undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að frumvarpið er að mörgu leyti, svo sem ég hef nefnt, það brogað að undir eðlilegum kringumstæðum ætti að endursenda það, a.m.k. hluta þess, til ráðuneytisins.

Við eigum að temja okkur ný vinnubrögð. Við eigum ekki að vera færibandaafgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið eins og verið hefur um árabil, sennilega áratugaskeið. Við eigum að taka okkur tak og þegar frumvörp koma seint, og ég vil segja að mörgu leyti illa gerð, til þingsins eigi að fara með þau eins og Elvis Presley sagði (Forseti hringir.) í góðkunnu lagi, með leyfi forseta: Return to sender.