139. löggjafarþing — 152. fundur,  11. júní 2011.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

891. mál
[13:45]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem forsætisnefnd Alþingis flytur um prófessorsstöðu tengda nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

Eins og öllum er kunnugt eru hinn 17. júní næstkomandi liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Afmælis Jóns Sigurðssonar hefur verið minnst með margvíslegum hætti á þessu ári á vegum nefndar sem var skipuð árið 2007 til þess að skipuleggja ýmsa viðburði, sýningar o.fl. til að minnast starfa Jóns Sigurðssonar. Starfsvettvangur hans var víðfeðmur. Hann var ekki aðeins forustumaður frelsisbaráttunnar heldur líka einn fremsti vísindamaður okkar Íslendinga um sína daga. Grundvöllur fyrir málstað hans var reistur á því að Ísland yrði frjálst og fullvalda ríki og efldar yrðu framfarir í atvinnuháttum og lífskjörum þjóðarinnar. „Vísindi og kunnátta eru lykill að allri framför manna og hagsældum“ sagði Jón Sigurðsson í grein sinni „Um alþíng“ árið 1842.

Í anda þessara orða hefur sú niðurstaða orðið á Alþingi að flytja þessa þingsályktunartillögu sem felur í sér að stofnað verði prófessorsembætti sem tengt yrði nafni Jóns. Meginviðfangsefni prófessorsins verði að stunda rannsóknir, standa fyrir ráðstefnum og fyrirlestrum og kennslu þannig að líf, starf og arfleifð Jóns Sigurðssonar sé í heiðri haft og að efld verði þekking á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Starfsvettvangur prófessorsins verður á heimaslóðum Jóns og verður vonandi til að efla Hrafnseyri, fæðingarstað hans, sem fræðasetur. Lögð er rík áhersla á að sá sem valinn er til að gegna stöðunni hverju sinni fullnægi öllum hæfiskröfum sem gerðar eru til prófessors og tryggt sé að hann njóti þess rannsóknarfrelsis sem slíkir menn hafa.

Málið hefur verið kynnt í þingflokkum, rætt á fundum formanna þingflokka og í forsætisnefnd Alþingis. Ég legg því ekki til að tillagan fari til nefndar enda er ætlunin að málið komi til síðari umræðu og lokaatkvæðagreiðslu á sérstökum hátíðarfundi á miðvikudaginn í næstu viku þegar dregur að þjóðhátíðardeginum. Sá fundur verður framlag Alþingis til að minnast þessara merku tímamóta í íslenskri sögu.