139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið enda margt búið að segja. Farið hefur verið yfir efnisatriði málsins og síðan hefur tilraun verið gerð til að fara yfir þessar nýjustu breytingartillögur. Það sem ég vildi segja í örfáum orðum er að lýsa andstöðu minni við þau vinnubrögð sem við höfum verið að upplifa síðustu daga og ég vona svo sannarlega að við lærum eitthvað af þeim.

Við höfum setið í þingskapanefnd, sérnefnd um endurskoðun á þingsköpum, mál sem við þurfum að ræða sem síðasta mál á þessu þingi, þar sem við höfum lagt okkur öll fram og náðum undir góðri stjórn og forustu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur að afgreiða það mál í sátt með einu nefndaráliti þar sem markmiðið var að breyta vinnubrögðum á þinginu. Þar var eitt lykilatriði, seinasta atriðið, sem við náðum sátt um og komum inn í það frumvarp og snýr að því að viðurlög skuli vera við því að leggja frumvörp fram of seint á þinginu. Það held ég að sé mesti gallinn á þessu máli. (Utanrrh.: Setja bara í fangelsi.) Við leggjum ekki til fangelsisvist, hæstv. utanríkisráðherra, en það mætti alveg koma með breytingartillögu, ég vísa hæstv. utanríkisráðherra á það. En það er nákvæmlega það sem fór með þetta mál fyrir utan ósamkomulagið í ríkisstjórninni, forustuleysið og allt það sem ég gæti talað um og haldið mjög langa ræðu. Þetta mál kemur inn tveimur mánuðum eftir frestinn, átta dögum fyrir þinglok, af því að við áttum að vera farin heim samkvæmt starfsáætlun fyrir tveimur dögum.

Við erum ekki að tala um nein smámál. Við erum að tala um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar. Við sem störfum á þingi skuldum þeirri grein, hvað sem okkur finnst um það kerfi sem var lögfest á þessu sama Alþingi, að sýna henni þá virðingu að vera ekki að rótast með hana og henda henni hingað fram og til baka. Það er rétt sem fram hefur komið, það ástand sem hefur verið hér síðustu tvo sólarhringa er þannig að verið er að henda breytingartillögum fram og til baka í bakherbergjum. Það er orðið þannig að nú er komin niðurstaða í málið en það hefur farið í 150 hringi og ég efast um að nokkur maður sé með endanlega yfirsýn yfir hvað við munum á endanum greiða atkvæði um í dag. Það er það sem er alvarlegt í málinu vegna þess að það eru ekki bara einhverjar tölur á blaði sem eru skrifaðar aftan á umslag, það er fólk á bak við þær tölur. Það eru byggðarlög, það eru fyrirtæki, það er lífsafkoma fólks úti um allt land sem er undir. Við megum ekki og eigum ekki að koma svona fram við það fólk. Lærum af þessu.

Nú skulum við nota það tækifæri sem hefur skapast með því að stóra kvótamálið, sem svo er kallað, er farið út af borðinu á þessu þingi. Komum okkur nú saman um að vinna það betur þannig að við getum þá komið með tillögur byggðar á sátt. Við vitum það öll sem erum búin að vera að semja hingað og þangað, hvort sem það er í þingskapanefnd eða um þetta mál, að sáttin felst ekki í því að aðeins einn fái en hinn ekki. Þess vegna þurfum við að gefa eftir í einhverjum málum til að lenda þessu. En höfum í huga grundvallarprinsippið, sem er að skapa þessari mikilvægu atvinnugrein traust og öruggt rekstrarumhverfi sem nýtist ekki bara þeim einstaklingum, þeim fyrirtækjum, þeim byggðarlögum sem þessi fyrirtæki gera út frá, heldur okkur öllum sem Íslendingum. Þetta er stórmál. Ég vona að við getum öll tekið höndum saman um að ljúka málinu á næsta þingi í betri og meiri sátt en við erum að gera núna.