139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:55]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var athyglisvert að heyra hv. þingmann lýsa reynsluheimi sínum undanfarna daga í þinginu. Ég er hingað komin til að lýsa því yfir að maður hefur skynjað það undanfarna sólarhringa að mjög erfitt hefur verið að leiða til lykta þetta erfiða deilumál innan þingsins. Það hefur þurft sterk bein og staðfestu til að sigla þessu fleyi í höfn fram hjá öllum þeim boðum og skerjum sem hagsmunaaðilar af öllum toga hafa lagt í leið hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Ég vil þakka forustu þeirrar nefndar og sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, og öðrum þeim sem hafa komið að því, hv. varaformanni líka, fyrir að hafa siglt þessu máli svo langt sem komið er. Við erum á byrjunarreit og við munum væntanlega halda áfram, því að þinginu er ekki lokið, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, að vinna stóra frumvarpið það sem eftir lifir þings fram á haust.