139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:22]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get stytt andsvar mitt með því að taka undir ýmis orð hæstv. utanríkisráðherra, (Gripið fram í: Stórútgerðina.) ágæt orð sem hann notaði um um ýmsar skuggahliðar á núverandi kvótakerfi. Þær gerði hv. þingmaður meðal annars að umræðuefni hér, þær skuggahliðar þegar ungir menn þurfa að kaupa sér kvóta fyrir mikla peninga, þurfa svo að sæta skerðingu vegna samdráttar (Gripið fram í.) nokkrum mánuðum seinna, þurfa að skuldsetja sig upp fyrir haus til þess og út úr því fara þeir sem seldu með fulla rassvasa af peningum. Þetta eru skuggahliðarnar sem við þurfum að lagfæra. (Gripið fram í: Ég vona að þú sért með …) Ég hlusta ekki á svona frammígjamm.

Mér fannst hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, tala eins og það væri verið að tala tungum tveim. Í endurskoðunarnefndinni skrifar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins upp á það að mæla með því að aflaheimildum verði skipt í potta þar sem annars vegar verða aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir, svo sem byggðakvóti, strandveiðar og aðrar sérstakar ráðstafanir. Upp á þetta skrifar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Er hv. þingmaður ekki sammála því sem hér kom fram í endurskoðunarnefnd? Hvað er formaður Sjálfstæðisflokksins að fara með þessu? Ég hélt, virðulegi forseti, að hér væri verið að nefna það sem þarf, m.a. sem lið í að ná sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar út af þessu kerfi sem er deiluefni hér í dag.