139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að sjávarútvegurinn er skuldugur en skuldirnar eru þó mun minni heldur en menn hafa haldið fram. Nettóskuldir sjávarútvegsins eru á bilinu 400–450 milljarðar kr. sem er óravegu frá því sem menn voru að segja. Það sem ríkisstjórnin er í raun að segja núna er að sjávarútvegurinn stendur undir þessum skuldum og getur þess vegna lagt meira af mörkum í ríkissjóð.

Af hverju stafa þessar skuldir? Það er alveg rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í þeim efnum. Sjávarútvegurinn hefur nefnilega sjálfur staðið undir hagræðingunni. Þessu er öfugt farið í flestum öðrum löndum. Nægir t.d. að nefna lönd Evrópusambandsins. Innan Evrópusambandsins er hellt milljarðahundruðum í að minnka flotann og draga úr afkastagetu hans. Við höfum farið aðra leið. Við höfum sagt: Sjávarútvegurinn veskú á að standa undir þessu. Hann á sjálfur að borga fyrir sína hagræðingu og standa síðan undir þeim skuldum sem af því hljótast. Við getum auðvitað ekki í einu orðinu sagt: Sjávarútvegurinn er svo skuldugur af því að hann fór út í að kaupa aðra menn út úr greininni og segja síðan eitthvað annað um það. Þetta er staðreyndin. Sjávarútvegurinn tók á sig skuldbindingar sem leiddu til hagræðingar í greininni og með þeim árangri sem við sjáum.

Hæstv. ráðherra nefndi strandveiðarnar. Við skulum ekki taka mikla umræðu um það en strandveiðar eru stundum réttlættar í þingsal vegna þess að þær séu svo sérstaklega góðar fyrir Vestfirði. Þá verð ég enn og einu sinni úr þessum ræðustóli að minna á það að strandveiðar standa fjóra mánuði á ári. Svo vel hefur tekist til hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann hefur tekið pólitíska ákvörðun um að úthluta aflaheimildum til framtíðar þannig að bátar sem m.a. róa frá Vestfjörðum mega róa 5 daga á ári í mánuði hverjum. Þetta eru öll ósköpin á meðan önnur svæði hafa aðra möguleika. Mér hefur því fundist dálítið ósanngjarnt að reyna að réttlæta strandveiðarnar með sérstakri skírskotun til Vestfjarða.