139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af hvaða ástæðum sem skuldir sjávarútvegsins eru miklar eða hvort sem þær eru mjög miklar eða ekki eins miklar eins og hv. þingmaður segir þá eru þær staðreynd, það er alveg ljóst. Enginn horfir fram hjá þeim. Til viðbótar þeim þarf að sjálfsögðu að hafa að leiðarljósi fullgild sanngirnis- og meðalhófssjónarmið þegar breytingar eru innleiddar. Ekki er verið að tala um annað en að gera það með eðlilegu tilliti til þess sem gerst hefur á lögmætum grundvelli í greininni árin á undan. Þannig hlýtur það alltaf að þurfa að vera. Spurningin er bara hvar mörkin liggja. [Kliður í þingsal.]

Varðandi strandveiðar vil ég segja eitt, frú forseti, af því að mér er málið pínulítið skylt. Í mínum huga er mjög mikilvægt að menn tali um þær eins og þær eru og eiga að verða. Þær eru bara staðganga þess sem var og gerði staðina að því sem þeir voru á árum og áratugum áður þær snúast um að hægt sé að stunda sjó yfir vor-, sumar- og haustmánuðina á litlum bátum á miðunum næst ströndinni. Það væru að mínu mati mikil mistök ef talað væri um þær sem nokkurt annað. Þær eiga að vera afmarkað lokalag neðst í greininni sem snýst bara um þetta. Það var a.m.k. mín hugsun þegar ég setti þetta af stað.