139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. þingskn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég mæli fyrir nefndaráliti þingskapanefndar um breytingu á lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Tilurð þessa frumvarps má rekja til þess að rituð var skýrsla fyrir Alþingi um eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Nefndin var sett á fót árið 2008. Hún skilaði skýrslu um málið í september 2009. Þá samþykkti Alþingi samhljóða á fundi sínum 28. september 2010 að breytingar á þingsköpum Alþingis væru hluti af víðtækum breytingum á stjórnkerfinu í kjölfar efnahagsáfallanna við fall bankanna í október 2008. Við útfærslu á ákvæðum frumvarpsins var einnig tekið tillit til ráðgefandi tilmæla Evrópuráðsins, nr. 1601/2008, um réttindi og ábyrgð stjórnarandstöðunnar í störfum þinga í lýðræðisríkjum.

Ég vil biðja hv. þingmenn að kynna sér gögnin, bæði nefndarálitið á þskj. 1794 og breytingartillögurnar á þskj. 1795. Nefndarálitið er nokkuð ítarlegt og ég mun aðeins tæpa á allra helstu atriðum og þá helst á þeim atriðum sem þingskapanefndin leggur til að breytt verði í frumvarpinu sem lagt var fram af forseta og þingflokksformönnum fyrr á yfirstandandi löggjafarþingi.

Aðalmarkmið hins nýja frumvarps er að efla eftirlitshlutverk löggjafans með framkvæmdarvaldinu og eru breytingar gerðar í samræmi við niðurstöðuskýrsluna sem ég nefndi áður. Þá var hitt aðalverkefnið að endurskipuleggja fastanefndir Alþingis með það að leiðarljósi að fækka þeim þannig að þingmenn sitji ekki samtímis fjölmörgum nefndum með tilheyrandi fundaárekstrum og öðru óhagræði sem af því hefur leitt.

Í nefndinni var ekki bara rætt það sem lagt er til í frumvarpinu heldur fjöldamörg önnur atriði í störfum hennar. Við komumst að samkomulagi um og nefnum það í nefndarálitinu og beinum því til hv. þingmanna að á nýju þingi í haust verði kosin á ný sérnefnd um þingsköpin og vinnunni haldið áfram og þau atriði sem þessari nefnd tókst ekki að ljúka við en hóf umfjöllun um og svo önnur atriði sem ekki var ætlunin að breyta í frumvarpinu, verði tekin til umfjöllunar í þingskapanefnd á næsta löggjafarþingi. Sjái sú nefnd ástæðu til að leggja til breytingar geri hún það og það komi þá í samfellu við þær breytingar sem okkur tekst vonandi að gera í dag.

Ég ætla að taka svolítið stórt upp í mig, frú forseti, og halda því fram að þetta séu nánast byltingarkenndar breytingar á starfsháttum þingsins sem hér verða leiddar í lög. Það er kannski með þetta eins og fleira að það fer ekki mikið fyrir því í vinnunni og mun í reynd ekki sjást fyrr en Alþingi fer að starfa að nýjum þingskapalögum og eftir þeim reglum sem forsætisnefnd er sett fyrir að setja um tiltekin atriði, hvort heldur það er um siðareglur þingmanna eða reglur um fundarsköp þingnefnda og annað slíkt.

Í frumvarpinu var lagt til að nefndirnar yrðu sjö. Við leggjum til að þær verði átta. Þá reiknast okkur nokkurn veginn til, þó að ekki sé gott að segja til um það, það er háð breytingum um fjölda ráðherra og samstarfi í þinginu, að hver þingmaður muni sitja í tveimur nefndum. Við vonum að það haldi. Ég gæti sett á langa ræðu um stundatöflu og hvaða hugmyndir við höfðum um það en ég ætla ekki að gera það. Við ræðum það við forseta og forsætisnefnd í framhaldinu.

Við ákváðum að bæta við áttundu nefndinni sem er nefnd sem ber gamalt nafn en er nú færð í nýjan búning. Hún heitir efnahags- og viðskiptanefnd og á að fjalla um efnahagsmál almennt; viðskiptamál, þar með talin bankamál og fjármálastarfsemi, skatta- og tollamál. Nokkuð var rætt um það í nefndinni og í frumvarpinu var lagt til að skattamál yrðu í fjárlaganefnd en eftir ítarlega yfirvegun og umræðu var ákveðið að gera þetta með þessum hætti og þess vegna fjölgar nefndum um eina. Þá tökum við tillöguna um atvinnuvega- og viðskiptanefnd, færum viðskipta- og efnahagsmálin saman í eina nefnd og höfum eina heildstæða atvinnuveganefnd sem fjallar eðli málsins samkvæmt um allar atvinnugreinar í landinu. Án þess að ég leggi í mikinn lestur á þessu vil ég ítreka það og benda þingmönnum á að kynna sér frumvarpið en líka nefndarálitið og breytingartillögurnar.

Önnur meginbreyting sem lögð er til er að samkomudagur Alþingis verði annar þriðjudagur í september. Það mun ekki taka gildi á yfirstandandi löggjafarþingi en hins vegar gerum við ráð fyrir að veturinn 2012–2013 hefjist þing í byrjun september, eigi síðar en annan þriðjudag í september, og standi allan veturinn. Þá verði hætt þeirri tilraun — það er best að orða það þannig — að koma aftur saman um tveggja vikna skeið í september til að ljúka löggjafarþinginu. Það er full samstaða um það eins og aðrar þær breytingar sem við leggjum til.

Þá leggjum við einnig til að eigi síðar en 1. apríl ár hvert leggi fjármálaráðherra fram þingsályktunartillögu um meginskiptingu útgjalda næsta fjárlagaárs, svokallaðan fjárlagaramma, og greinargerð um breytingar á tekjuöflun ríkisins. Með tillögunni skal fylgja þriggja ára áætlun. Með því að gera þetta með þessum hætti erum við mjög meðvitað að færa fjárlagavinnuna til í almanaksárinu og fara að dæmi nágrannaþjóða okkar og hafa rammann ekki bara tilbúinn í ráðuneytunum heldur líka hjá fjárveitingavaldinu, löggjafanum að vori til umræðu og afgreiðslu. Síðan kemur fjárlagafrumvarpið að sjálfsögðu sjálft í kjölfarið á haustþingi. Ég er viss um að það verður til mikilla bóta.

Í frumvarpinu voru gerðar ítarlegar tillögur um fundi og fundargerðir þingnefndanna. Þar er kveðið á um að halda opna og lokaða fundi og hvaða reglur eigi að gilda um þá. Við bættum því við að fundargerðir nefnda ættu síðan að vera opinberar á netinu eins fljótt og hægt er að loknum nefndarfundi og þá skyldu nefndir halda sérstakar gerðabækur um trúnaðarmál vegna þagnarskylduákvæða sem einnig eru í frumvarpinu.

Þá ræddum við einnig framlagningarfrestinn. Lagt var til í frumvarpinu að hann yrði færður frá 15. apríl til 15. mars. Við vorum öll sammála um að það væri í sjálfu sér góð tillaga en hefði mjög lítið upp á sig ef ekki fylgdu því einhver aðhaldstæki. Aðhaldstækið er, eftir langa umræðu og mikla umhugsun í nefnd, að komi stjórnarfrumvarp eða þingmál fram eftir 1. apríl þurfi það að bíða í fimm daga ellegar hafa 3/5 í stuðning í afbrigðum á þinginu til að komast á dagskrá. Það er kannski róttækari breyting en margan grunar, það er grundvallarbreyting og er auðvelt að vísa í nýleg dæmi í þessu sambandi. Ég hygg að þetta verði enn ein leiðin til að auka festu og aga í þingstörfunum til langframa þessari samkomu til heilla.

Lagt er til að forsætisráðherra skili skýrslu um framkvæmd þingsályktunartillagna. Það hefur lengi verið í umræðunni og er það eðlilegt. Hér eru oft samþykktar tillögur og svo verður að segjast eins og er að það er ekki alltaf vitað hver meðferð þeirra verður eða hvar þær enda þannig að hér er verið að loka þeim hring. Þá er fjallað um það hér hvort þær eru komnar til framkvæmda eða ekki og þá geta þingmenn tekið á því. Síðan er lögð til svolítil breyting á skýrslum alþjóðanefnda sem farið hafa í umræðu beint á þinginu, þ.e. að þær fari til utanríkismálanefndar, hún vinni með þær og geti sameinað þær heildarskýrslu um stöðu alþjóðastarfsins. Þá leggjum við til að frestur til að svara fyrirspurnum skriflega sé lengdur úr 10 virkum dögum í 15 virka daga í þeirri von að það auðveldi svör á réttum tíma. Við leggjum líka til að ef ráðherrar halda ekki 15 daga frestinn geri þeir Alþingi skriflegar skýringar á því hvernig á því standi og þá sé hægt að bregðast við því.

Þá er ein önnur grundvallarbreyting um að meiri hluti nefndar geti flutt mál og ég held að hún geti liðkað mjög fyrir þingstörfunum. Ég hef áður nefnt siðareglur fyrir alþingismenn sem forsætisnefnd er falið að setja. Síðast en ekki síst urðum við sammála um að leggja til breytingartillögu sem er endurskoðunarákvæði og ég ætla að leyfa mér að lesa það upp. Það orðast svo, með leyfi forseta:

„Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:

Starfshættir fastanefnda, svo og skipting málefna milli þeirra, sbr. 5. gr. laga þessara, komi til endurskoðunar innan árs frá gildistöku laganna.“

Gert er ráð fyrir að við förum að starfa eftir þessum lögum 1. október næstkomandi verði þau samþykkt í dag og síðan, eins og ég minntist áður á, að við upphaf nýs löggjafarþings skuli kjósa níu þingmanna nefnd sem vinni að frekari endurskoðun þingskapa og hafi hliðsjón af áliti sérnefndar sem fjallar um breytingarnar á þingsköpum á 139. löggjafarþingi, þ.e. á þessu þingi. Það er full samstaða um að hafa það inni vegna þess að mannanna verk eru aldrei fullkomin og kannski verður það reynslan næsta vetur að skipting nefndanna er ekki endilega sú heppilegasta þó að við höldum að við séum að leggja til góða skiptingu. Þá er hægt að bregðast við því ef um það næst samstaða og ef þingmenn hafa á því áhuga. Það á í sjálfu sér við aðra hluta þessa frumvarps. Það er þá kannski í eðlilegu framhaldi af því að við höfum einsett okkur að leggja til að þessari vinnu verði fram haldið og ég vona að þingmenn verði allir tilbúnir til þess næsta vetur að hafa það með þeim hætti, þá verður þetta í raun og veru mjög einfalt og eðlilegt endurskoðunarferli.

Að lokum vil ég, eftir þessa stuttu framsögu um þetta langa nefndarálit, þakka nefndarmönnum öllum fyrir sérstaklega gott samstarf og góðan samningsvilja. Auðvitað vorum við ekki öll sammála um öll atriði en við náðum sem betur fer sameiginlegri niðurstöðu um gagnmerkar breytingar, að ég tel, og umbætur á frumvarpi sem þó var mjög gott fyrir. Ég held að afgreiðsla þessa frumvarps verði til mikilla heilla fyrir löggjafarsamkomuna og fyrir það starf sem hér fer fram.

Undir nefndarálitið rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Ragnheiður Elín Árnadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Kristján L. Möller, Birgitta Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Þuríður Backman, Gunnar Bragi Sveinsson og Róbert Marshall.