139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að ríkisstjórnin hafi haft einstakt tækifæri til að slá friðartón um sjávarútvegsmál til framtíðar þegar vinna endurskoðunarnefndarinnar lá fyrir, þær tillögur sem þar birtust og sú breiða samstaða sem náðist í þeim hópi. En það hefur ekki tekist vel til á ríkisstjórnarheimilinu gagnvart þessu máli frekar en mörgum öðrum. Hér held ég að við höfum orðið vitni að lélegustu vinnubrögðum í meðferð mála á þingi sem um getur. Umsagnir allra þeirra aðila, alveg sama úr hvaða röðum þær koma, hvort það eru fulltrúar sjómanna, fiskvinnslufólks, útgerðarmanna eða annarra sérfræðinga á þessu sviði, sem sendu umsagnir inn, voru allar á sama veg; allir gáfu frumvarpinu falleinkunn. Það er falleinkunn fyrir ríkisstjórnina í fyrstu skrefum sínum í þá átt að fara í þessar grundvallarbreytingar.

Ég vona að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafi lært sína lexíu (Forseti hringir.) af þessari ömurlegu málsmeðferð og beiti betri verkfærum (Forseti hringir.) í haust þegar stærri endurskoðun stendur til.