139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þess er skemmst að minnast að í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum voru menn inntir eftir því hvenær frumvörp ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnarmálin kæmu fram. Það var sagt að frumvörpin kæmu í næstu viku, eftir helgi. Svo liðu vikur og mánuðir og málin biðu og biðu. Nú er komið í ljós að hafi það verið ætlun stjórnarflokkanna að slá pólitískar keilur með þessum frumvörpum hefur sú tilraun mistekist hrapallega. Það er ljóst af því í hvaða farveg þessi mál féllu — þau féllu í mjög grýttan farveg hjá öllum hlutaðeigandi. Meira að segja gátu stjórnarflokkarnir sjálfir ekki komið sér saman um eina niðurstöðu þegar málið fór til nefndar. Það varð okkur öllum ljóst sem fylgdumst með vandræðaganginum hjá ríkisstjórninni við að koma málunum hér inn í þingið að það var ekki að ástæðulausu sem þau komu ekki fram, það var vegna þess að stjórnin hafði ekki einu sinni komið sér almennilega saman um þessi mál áður en þau komu hingað. Öll málsmeðferðin (Forseti hringir.) og efnisatriði þessa frumvarps hafa fengið falleinkunn. Best hefði farið á því að ríkisstjórnin hefði dregið (Forseti hringir.) málið í heild sinni til baka.