139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Eftir að búið er að tína út flestar greinar af þeim stofni sem þetta frumvarp stendur á er þetta sú grein sem hefur valdið mestum ágreiningi síðustu daga. Hún fjallar um að stærstu útgerðarfélög landsins komi að því að greiða inn í félagslega potta, taki þátt í því að mynda hið félagslega kerfi í kringum sjávarútveg, sem við teljum öll nauðsynlegt að sé til staðar með einum eða öðrum hætti. Það hefði þótt frétt, virðulegi forseti, ef það væri Sjálfstæðisflokkurinn sem ætti hér frumkvæðið að því að leggja fram tillögu um að standa vörð um stærstu útgerðarfélögin og fría þau nánast við því að taka þátt í að greiða inn í félagslega potta. En við þingmenn höfum mörg viljað að þau stóru félög kæmu að þessu alveg eins og lítil og meðalstór fyrirtæki í bolfiski. Þetta er mikið réttlætismál og við verðum að stíga skrefið lengra á þessu sviði við næstu endurskoðun sem er boðuð á þessum málaflokki í haust.