139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að greiða tillögunni atkvæði mitt í þessari umferð. Ástæðan er sú að verið er að stíga eitt lítið hænuskref í að auka jöfnuð í því kerfi sem við búum við. Ég hefði viljað að greinin hefði staðið óbreytt eins og hún var í frumvarpinu því að í henni voru engar öfgar, eins og kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller. Öfgarnar eru eins og þær eru í dag, að örfáar stórútgerðir í uppsjávarveiðum sleppi við að borga eða gera sitt til að styrkja þessa samfélagslegu potta. Það eru öfgarnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég skil ekki, frú forseti, að þeir sem kenna sig við jöfnuð og jafnaðarmennsku skuli ekki stíga skrefið til fulls, ég verð að segja það. En þetta er hænuskref í þá átt að þeir sem græða nú mest í þessari grein leggi eitthvað til.