139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að við framsóknarmenn höfum setið hjá við ýmsar greinar frumvarpsins munum við greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi. Það er illa unnið enda hefur ekki gefist nægur tími til að fara yfir það. Ég vona satt best að segja og innilega að þetta sé síðasta frumvarpið í öllum málum sem við afgreiðum með þessum hætti, slíkur sem atgangurinn hefur verið í krampakenndri vinnu á tíu dögum eða svo.

Í breytingartillögunum voru sumar breytingarnar til góðs, aðrar til hins verra. Í þeirri vinnu sem fram undan er í haust, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd mun ekki vinna þá vinnu í sumar heldur verður það frumvarp tekið aftur upp á næsta þingi, þarf að fara aðra leið ef hún á að skila þeim árangri að um málið verði sátt og samlyndi. Það þarf meðal annars að hefja málefnalega vinnu og forsvarsmenn, ekki síst ríkisstjórnarinnar, verða þá að temja sér að tala eðlilega til atvinnugreinarinnar og um atvinnugreinina þannig að einhver sátt ríki í samfélaginu.

Ég mun segja nei við þessu frumvarpi.