139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta frumvarp er enn eitt dæmið um afleit vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar. Það er ekki byggt á rökum heldur innihaldslausri orðræðu. En það var kaldhæðnislegt að á meðan reynt var að lappa upp á þetta frumvarp áðan komu fram nokkrir af þeim þingmönnum sem hafa verið helstu talsmenn þessarar leiðar og settu út á að stofnuð yrði prófessorsstaða á Vestfjörðum til minningar um Jón Sigurðsson. Ef þessir þingmenn vilja vera sjálfum sér samkvæmir ættu þeir að tala um að fyrna prófessorsstöðu við núverandi háskóla, búa til nýjar stöður fyrir annað fólk. Það væri hægt að hafa sérstakan ritvélapott fyrir þá prófessora sem nota ekki tölvur og sérstakan heimanámspott fyrir þá sem taka menn í fóstur heim til sín upp á gamla mátann. (Gripið fram í.)

Bæði í atvinnumálum og menntamálum þarf skynsemi. Við viljum tryggja sem flestum þátttöku í atvinnumálum og í menntamálum og á sem flestum stöðum um allt land, en það þarf að innleiða slíkt af skynsemi frekar en með innihaldslausri orðræðu.