139. löggjafarþing — 155. fundur,  15. júní 2011.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

891. mál
[11:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú þingsályktunartillögu um að stofnuð verði prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands. Það er eðlilegt í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli þjóðhetjunnar að Alþingi Íslendinga fari vel yfir með hvaða hætti lífi, starfi og hugsjónum Jóns verði best miðlað til komandi kynslóða. Hann var ekki aðeins forustumaður þjóðfrelsisbaráttunnar sem hófst um miðja 19. öld, hann var jafnframt einn fremsti vísindamaður í norrænum fræðum og mikill baráttumaður í að efla atvinnuhætti og lífskjör okkar Íslendinga. Jón var ekki bara Vestfirðingur, hann var Norðlendingur, hann var Sunnlendingur og hann var Austfirðingur, en fyrst og fremst var hann Íslendingur. Hann var og er okkar allra.

En hvernig Íslendingur var Jón? Satt best að segja er ekkert einhlítt svar við þeirri spurningu. Á hátíðarstundum erum við þó ekki í vafa um að góðir Íslendingar eru þeir sem feta í fótspor Jóns Sigurðssonar forseta. Það virðist reyndar á allra færi að setja sig í fótspor Jóns forseta og tala í nafni hugsjóna og baráttumála hans eftir þörfum svo stundum jaðrar við íslenska rétthugsun. Eitt vitum við þó með vissu, hugsjón Jóns forseta var svo sterk og áhrif hans svo rík að allar götur síðan hann sat í forsæti á Alþingi og í Bókmenntafélaginu hefur það verið hverjum málstað til styrktar að telja til skyldleika við hann. Hitt er svo sjálfstætt skoðunarefni hvort sá skyldleiki hefur hverju sinni verið sannur og ósvikinn. Eða eins og mætur maður spurði fyrir skömmu síðan: Er hugsanlegt að menn telji til skyldleika við hugsjónir Jóns forseta þegar þeir í raun tala þvert gegn því sem hann sagði og gerði? Má vera að menn bregði nafni hans fyrir sig eins og skildi eða auglýsingamerki, hver svo sem raunverulegur málstaður þeirra er? Þetta er ekkert nýtt.

Þegar Íslendingar tókust á um uppkast millilandanefndarinnar um nýja réttarstöðu Íslands 1908 töldu báðar fylkingar til skyldleika við hugsjónir Jóns forseta. Þorvaldur Thoroddsen prófessor skrifar í Lögréttu þegar öld var liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar að það sé annars mjög einkennilegt að æsinga- og öfgamenn sem hafi verið merktir andstæðingar Jóns Sigurðssonar í stjórnmálum meðan hann lifði og hafi verið honum oft óþæg fótakefli, séu nú búnir að stela honum látnum og veifa honum jafnan í kringum sig. Valtýr Guðmundsson vitnar til þessara ummæla á sama tíma í Eimreiðinni og segir að engum sem til þekki verulega þyki þetta of mælt. Hann telur að þetta hljóti að stafa af því að almenningi sé orðið svo ókunnugt um hinar sönnu skoðanir Jóns Sigurðssonar að fá megi menn til að trúa þó að honum sé eignað jafnvel það sem hann hafði mestu skömm og óbeit á.

Tæplega hálfri öld síðar beittu síðan andstæðingar Atlantshafsbandalagsins hugsjónum Jóns óspart á Alþingi, bæði í ræðu og riti. Það sama gerðu andstæðingar aðildar Íslands að EFTA í kringum 1970 og síðan þeir sem andæfðu samningnum um Evrópska efnahagssvæðið rúmum 20 árum síðar.

Hvað er sagan þá að segja okkur? Að einhver einn hópur umfram annan falli undir það að vera betri Íslendingar en aðrir? Að það sé einungis á færi sumra að túlka Jón og vera meiri Íslendingar fyrir vikið? Það tel ég ekki þótt þjóðinni kunni að finnast erfitt og stundum snúið að skoðanir hafi verið skiptar um boðskap Jóns í gegnum tíðina. Við vitum að Jón forseti var Íslendingur en hann var einnig heimsborgari í fegurstu mynd þess orðs. Hann skildi menningu sína en einnig alþjóðlegt umhverfi sem var í mikilli gerjun og nýtti það í baráttu fyrir Ísland.

Þegar við skoðum söguna sjáum við að menn hafa valið skírskotanir í hugsjónir og baráttumál frelsishetjunnar eftir því sem hentar hverju sinni. En það er bæði umhugsunar- og rannsóknarefni í senn hvernig þekkingin á skrifum og hugsjónir Jóns forseta hefur flust á milli kynslóða og hvort skírskotunin til Jóns byggir á þekkingu eða ímynd.

Þetta kann að vera eitt af fjölmörgum verkefnum þeirra sem tengjast munu prófessorsstöðu Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands. Það er hins vegar ekki okkar stjórnmálamanna að segja fyrir um hvernig starf og tiltekin verkefni háskólans eru unnin. Þessi þingsályktunartillaga má í engu hrófla við hinu akademíska frelsi háskólanna sem samstaða hefur verið um á Alþingi. Nú verður það Háskóla Íslands, okkar virtustu mennta- og rannsóknarstofnunar, að takast á við líf, starf og hugsjónir Jóns, frelsishetjunnar okkar og fræðimannsins, og skila því til samfélagsins svo hver og einn Íslendingur geti lært af sögunni, landinu okkar til farsældar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.