139. löggjafarþing — 155. fundur,  15. júní 2011.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

891. mál
[11:29]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er við hæfi að Alþingi minnist 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar með táknrænum hætti. Í þingsályktunartillögunni er lagt til að stofnuð verði prófessorsstaða við Háskóla Íslands tengt nafni hans í þakklætis- og virðingarskyni.

Jón Sigurðsson forseti var í lifanda lífi sameiningartákn íslensku þjóðarinnar. Hann færði henni jákvæða sjálfsímynd og um leið baráttuþrek í nývakinni þjóðfrelsisbaráttu víða í Evrópu. Réttmæt og óumdeilanleg gagnrýni á verslunarok danskra kaupmanna var undanfari sjálfstæðisbaráttu Íslendinga undan dönsku konungsdæmi. Jón Sigurðsson reisti markið hátt; Ísland skyldi verða frjálst og fullvalda ríki.

Starfsvettvangur Jóns Sigurðssonar var breiður. Hann var einn fremsti vísindamaður í norrænum fræðum. Hann var á heimsmælikvarða, eins og sagt væri í dag. Hann var auk þessa víðsýnn, atorkusamur, nákvæmur og framfarasinnaður. Hann tengdi saman vísindi og atvinnu og benti á mikilvægi nýsköpunar fyrir hagsæld þjóðarinnar. Hann var öflugur stjórnmálamaður og lengi forseti hins endurreista Alþingis á 19. öld, fyrst neðri deildar og síðan sameinaðs þings. Viðurnefnið „forseti“ fékk hann þó ekki sem einn af forsetum Alþingis, heldur gekk hann undir því viðurnefni meðal vina eftir að hann var kosinn forseti Hafnardeildar Hins íslenzka bókmenntafélags árið 1851. Þaðan kemur forsetanafnið.

Sem alþingismaður beitti hann sér fyrir mörgum brýnum þjóðþrifamálum en hann bar einnig hag Alþingis sem stofnunar fyrir brjósti og beitti sér m.a. fyrir bættum umbúnaði Alþingis á margvíslegan hátt. Hann hafði sterkan persónuleika og hreif fólk með sér í þeim þjóðþrifamálum sem hann beitti sér fyrir. Hann var óumdeildur pólitískur leiðtogi þjóðarinnar. Allt frá því að hann birti sína fyrstu pólitísku grein eða ritgerð og allt þar til hann lést. Ritgerðin bar titilinn „Um alþíng“ og telst hún vera fyrsta grundvallarritgerð hans um íslensk stjórnmál.

Hæstv. forseti. Á Íslandi búa í dag um 300 þúsund manns, fjöldi á við íbúa í úthverfum stórborga eða smábæja erlendra ríkja. Okkur hættir til að telja það sjálfsagðan hlut að hafa starfandi öfluga háskóla, sterka lýðræðishefð, þingræði, opið stjórnkerfi og framsækið atvinnulíf. En eru þessir þættir allir sjálfgefnir? Þarf ekki stöðugt að vera á varðbergi til að viðhalda og efla grundvallarþætti þjóðlífsins? Var það sjálfgefið að háskólar og skólar landsins héldu að mestu leyti óbreyttri starfsemi í kjölfar efnahagshrunsins? Að stjórnsýslan og Alþingi stæðust álagið og atvinnulífið að mestu leyti? Ekkert af þessu er sjálfgefið hjá fámennri þjóð. Því ber okkur að standa vörð um þau gildi sem Jón Sigurðsson forseti lýsti sem forsendu að stofnun lýðræðisríkis. Að því er nú m.a. unnið í störfum stjórnlagaráðs með endurskoðun sjálfrar stjórnarskrárinnar, með breytingum á þingsköpum Alþingis, eins og samþykkt var fyrir nokkrum dögum á Alþingi.

Hæstv. forseti. Áfram verður unnið að bættum umbúnaði Alþingis í anda Jóns Sigurðssonar. Í þeirri uppbyggingu sem þjóðin stendur nú frammi fyrir er gott að hafa framsýni og metnað Jóns Sigurðssonar að leiðarljósi. Hann taldi að til eflingar framfara í atvinnuháttum og lífskjörum bæri að efla vísindi og kunnáttu og er það megintilgangur þessarar þingsályktunartillögu.

Háskóli Íslands hefur eflst á þeim 100 árum sem hann hefur nú starfað. Starfshættir háskólans eru í stöðugri þróun, eins og rannsókna- og fræðasetrin út um land bera vott um. Prófessorsstöðu við Háskóla Íslands er ætlað að efla rannsóknir og kennslu á þeim sviðum sem tengjast lífi og starfi Jóns Sigurðssonar.

Hæstv. forseti. Ég mæli með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu.