139. löggjafarþing — 155. fundur,  15. júní 2011.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

891. mál
[11:33]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Þessa dagana minnumst við tveggja alda fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar frá Hrafnseyri við Arnarfjörð. Forsætisnefnd Alþingis hefur lagt til að stofnuð verði prófessorsstaða tengd nafni hans við Háskóla Íslands og verði starfið unnið við rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða. Er stöðunni ætlað að efla rannsóknastarf og kennslu sem tengist lífi, starfi og arfleifð Jóns Sigurðssonar og efla þekkingu á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Er það vel. Störf og barátta Jóns einkenndist af róttækri skynsemi sem á erindi nú sem áður.

Það eru fleiri en háskólamenn sem fjalla um starf Jóns og persónu hans. Í vetur sem leið lærðu börn í Kópavogsskóla um Jón, samtíma hans og sjálfstæðisbaráttuna og mörg þeirra skrifuðu um hann stuttar ritgerðir. Í einni slíkri segir, með leyfi forseta:

„Jón hefur líklega ákveðið að verða stjórnmálamaður árið 1830 þegar skip komu frá útlöndum til Reykjavíkur og fréttist að það væri mikil bylting í gangi í Evrópu. Markmið Jóns í sjálfstæðisbaráttunni voru svipuð og margra annarra Íslendinga er áður höfðu barist fyrir réttindum landsins, að Íslendingar skyldu ráða sínum eigin málum. En munurinn var sá að hann studdist við önnur rök en áður höfðu þekkst. Hann krafðist þess að Íslendingar réðu sjálfir yfir ríki sínu, ekki konungurinn. Valdið skyldi vera í höndum þjóðarinnar, annað hindraði framfarir á Íslandi að mati Jóns.“

Forseti. Ég hef aldrei verið hrifin af því að setja menn á stall. Mennirnir eru breyskir og allir hafa bæði kosti og galla. En staða Jóns og hlutverk er einstakt og á stall var hann settur. Það fer vel á því að Jón standi fyrir utan Alþingi, á miðjum Austurvellinum sem hefur verið vettvangur mótmæla og rósturs síðustu missirin. Þar hefur fólk safnast saman, staðið upp og sagt: Hingað og ekki lengra. Við mótmælum öll. Fólkið hefur krafist þess að valdið verði í höndum þjóðarinnar. Annað hindri framfarir á Íslandi. Jón stendur á Austurvelli okkur öllum til aðhalds og hvatningar svo við getum öll orðið sómi Íslands, sverð þess og skjöldur.

Forseti. Ég velti því stundum fyrir mér hvar Jón væri ef hann væri uppi á okkar tímum. Ég held að hann mundi einmitt beita gagnrýninni hugsun sinni og hæfileikum innan háskólasamfélagsins og því finnst mér við hæfi að efla háskólastarf á æskuslóðum hans á þessum tímamótum. En stundum, frú forseti, tæki hann sér stöðu einmitt hér fyrir utan, á Austurvelli miðjum. Hann stæði í fjöldanum og krefðist réttlætis og að valdið yrði í höndum þjóðarinnar.