139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

framhaldsfundir Alþingis.

[10:32]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra góðar óskir til okkar þingmanna og býð alþingismenn jafnframt velkomna til framhaldsfunda Alþingis, 139. löggjafarþings. Samkvæmt starfsáætlun er gert ráð fyrir þingfundum næstu tvær vikurnar og nýtt þing, 140. löggjafarþing, verður svo sett laugardaginn 1. október.

Á septemberþinginu í ár verður einkum fjallað um þau mál sem afgreidd höfðu verið frá nefndum er þingfundum var frestað í júní, svo og mál sem verið hafa til lokavinnslu í þingnefndum undanfarnar vikur. Ég á þess vegna fastlega von á því að þessir þingdagar í september verði annasamir og bið þingmenn að hafa það í huga þegar þeir skipuleggja störf sín að öðru leyti.

Eins og þingmönnum er kunnugt afhenti stjórnlagaráð forseta Alþingis tillögur sínar að nýrri stjórnarskrá 29. júlí sl. Forsætisnefnd fjallaði nýlega um hina þinglegu meðferð málsins og sendi ég þingmönnum upplýsingar um þá tilhögun fyrr í þessari viku. Fyrirhuguð málsmeðferð hefur jafnframt verið kynnt opinberlega. Ég vænti þess að sú málsmeðferð tryggi að tillögur stjórnlagaráðs fái vandlega umfjöllun á komandi þingi.

Þá vil ég einnig greina þingheimi frá því að gengið hefur verið frá skipan í þær tvær rannsóknarnefndir sem Alþingi ákvað með þingsályktun að koma á fót í samræmi við ný lög um rannsóknarnefndir sem þingið samþykkti í lok vorþings. Nefndirnar munu annars vegar fjalla um málefni sparisjóðanna og hins vegar Íbúðalánasjóðs.

Ákvörðun um að koma á fót opinberri rannsóknarnefnd er ein af veigameiri ákvörðunum sem Alþingi tekur og kostnaðarsamt. Ég vil við þetta tækifæri lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að Alþingi eigi að gæta þess að slíkar nefndir séu ekki skipaðar nema að vel ígrunduðu tilefni og þegar ekki er hægt að notast við hefðbundin rannsóknarúrræði, eins og raunar er margítrekað í skýrslu þeirra sérfræðinga sem Alþingi fékk til að undirbúa þessi mál. Þannig tel ég að við leggjum grunn að nauðsynlegum trúverðugleika rannsóknarnefnda þingsins.

Eins og sjá má á dagskrá fundarins hefur forsætisráðherra óskað eftir því að flytja þinginu munnlega skýrslu í upphafi þingfundar í dag um stöðu efnahags- og atvinnumála og er með því hafður sami háttur á og á síðustu septemberfundum. Er það í anda þess að septemberfundum var, auk annarra verkefna, meðal annars ætlað að veita tækifæri til almennrar pólitískrar umræðu eftir sumarhlé þingsins.