139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

fundarstjórn.

[10:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Um leið og ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að koma til þings og í upphafi þings að taka umræðu við okkur þingmenn um stöðuna í atvinnu- og efnahagsmálum vil ég leyfa mér að gera athugasemd við fyrirkomulag umræðunnar. Um munnlega skýrslu gildir samkvæmt þingsköpum að öllum þingmönnum sem svo kjósa gefst kostur á að taka þátt í umræðum og um það gilda þær reglur að það eru þrjár umræður og ákveðin tímamörk.

Í hópi þingflokksformanna var ákveðið að reyna að ná samkomulagi um fyrirkomulag þessarar umræðu. Ég gerði athugasemd við það fyrirkomulag sem á endanum varð niðurstaðan. Athugasemdin lýtur að því að með því að taka ekki tillit til hlutfallslegs þingstyrks flokkanna er hróplegt misvægi í ræðutíma þingmanna eftir því í hvaða flokkum þeir eru. Þannig hafa, ef við reiknum þetta niður á flokk, þingmenn Sjálfstæðisflokksins 1,96 mínútur, svo þetta sé allt nákvæmt, til þess að tjá sig ef allir tala en þingmenn Hreyfingarinnar 7,33 mínútur. (Forseti hringir.) Ég geri athugasemd við þetta, frú forseti, og óska eftir því að í framtíðinni, þegar við í þessum hópi förum að semja um fyrirkomulag slíkra umræðna, verði þetta tekið til greina.