139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti og hv. alþingismenn. Það kann að einhverju leyti að skýra svartsýni formanns Sjálfstæðisflokksins að hann virðist ekki kynna sér nægjanlega vandlega gögn, t.d. um atvinnuástandið í landinu. Hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði að 16 þús. manns væru núna án atvinnu. Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun í lok júlí voru þá 12.253 á skrá yfir þá sem þáðu atvinnuleysisbætur, þar af tæplega 2 þús. á hlutabótum, þannig að án atvinnu að fullu voru 10.500 manns. (Gripið fram í.) Skiptir kannski ekki miklu, finnst einhverjum, en ég hygg þó að hv. þingmaður vilji að hið sannara sé haft uppi.

Mér finnst ánægjulegt að koma í pontu og geta rætt þá staðreynd að nú hefur tekist að ljúka síðustu endurskoðun á samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Að baki þeirri áætlun er mikil vinna þar sem margir hafa lagt gríðarlega mikið á sig. Það ber að þakka þeim sem borið hafa hitann og þungann af þeim aðgerðum. Eins og allir vita, ekki síst þingmenn, hafa þessu erfiða verki fylgt fórnir en þær voru nauðsynlegar. Þær voru óumflýjanlegar. Veruleikinn er sá að óháð tilvist, jafnvel tilveru, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðum við Íslendingar alltaf orðið að grípa til viðamikilla ráðstafana til að vinna okkur út úr erfiðleikunum eftir hrunið 2008. Það vorum við sem urðum að gera það og það erum við sem höfum gert það.

Eins og fram kemur í rökstuðningi forsvarsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og eins og fram hefur komið víða á undanförnum dögum, hjá erlendum sérfræðingum og greiningaraðilum, og um það eru íslensk stjórnvöld líka sammála, hafa öll helstu markmið áætlunarinnar náðst. Við vitum líka hvert verkefnið var. Þegar leitað var á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var búið að loka á landið. Fjármálakerfið var í aðalatriðum hrunið. Vextir og verðbólga voru 18%. Krónan var í frjálsu falli. Tekjur ríkissjóðs voru að hrynja og útgjöldin að stóraukast. Það er augljóst mál að á tiltölulega skömmum tíma hefðu án aðgerða hin opinberu fjármál orðið ósjálfbær og óviðráðanleg. Verkefnið var að afstýra endanlegri og algerri bráðnun íslenska hagkerfisins. En um það var talað. Hættan á algerri bráðnun hagkerfisins við fordæmalausar aðstæður eins og sérfræðingarnir sögðu haustið 2008 blasti við. Það var rætt um hættuna á greiðslufalli og gjaldþroti þjóðarinnar.

Nú er mikið vatn til sjávar runnið og staðan gjörbreytt. Það eiga menn að viðurkenna og gleðjast yfir því. Það talar enginn lengur um að Ísland sé að komast í þrot. Við erum farin út af hættusvæðinu og komin í mikið skjól. Það er athyglisvert að fylgjast með þeirri ólund sem braust út meðal til dæmis stjórnarandstöðunnar yfir þó þeim stað sem við erum komin á.

Ég tel að við Íslendingar verðum að horfast í augu við það að í október 2008 glataði landið nánast efnahagslegu sjálfstæði sínu. Ekkert traust var eftir. Það traust hefur þurft að byggja upp og við höfum náð þar miklum árangri. Sá árangur sannaðist hjá tiltölulega óvilhöllum dómara í júnímánuði síðastliðnum þegar íslenska ríkið fór út á alþjóðlegan fjármálamarkað og sótti sér 1 milljarð dollara með skuldabréfaútgáfu með góðum árangri og á ágætum kjörum. Ekki eru þeir sem þar fjárfestu með peningum sínum á mála hjá ríkisstjórninni.

Ég tel rétt að draga strik í sandinn við þessi tímamót sem vissulega eru mikil. Við ættum í sameiningu að ræða hvernig við getum nú og á þeim grunni sem þó hefur tekist að byggja upp unnið áfram úr erfiðleikunum og stefnt hér að betra samfélagi. Ég held að það væri uppbyggilegra og meiri eftirspurn eftir því meðal þjóðarinnar að við þingmenn sameinuðumst um að segja kost og löst á hlutunum, ræða þá eins og þeir eru, viðurkenna þann árangur sem hefur náðst og viðurkenna líka vandamálin sem áfram er við að glíma. Það er það sem þarf að gera.

Í ríkisfjármálunum hefur óumdeilanlega náðst mjög mikill árangur. Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði um upphaflega áætlun. Já, við skulum aðeins staldra við hana. Tökum ríkisfjármálin sem dæmi. Það var gert ráð fyrir því í upphaflegri áætlun að hallinn á ríkissjóði, heildarjöfnuður, yrði neikvæður um 7,3% af vergri landsframleiðslu á yfirstandandi ári. Það var samkvæmt fjárlögum. Horfum nú á í sumarlok þegar ætla má að sá halli verði neikvæður um u.þ.b. 2,5%. Það munar yfir 60 milljörðum kr. á því hvað ríkisfjármálin standa sem sagt betur núna á haustmánuðum og á yfirstandandi ári en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Það munar um minna en 60 milljarða kr. minni halla á ríkissjóði en þá var spáð. Frumjöfnuður næst á þessu ári á rekstrargrunni en verður ef til vill. lítillega undir strikinu á greiðslugrunni.

Þessi mikla aðlögun í ríkisfjármálunum hefur farið fram á erfiðu samdráttarskeiði í þjóðarbúskapnum og á tiltölulega skömmum tíma. Það vekur mikla athygli. Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman, sem ekki er heldur á mála hjá ríkisstjórninni, vekur sérstaka athygli á þessu og því að tekist hefur að fara með samfélagið í gegnum þessa erfiðleika og ná þessum árangri án þess að kippa stoðunum undan velferðarsamfélaginu. Það hefur tekist að hlífa lægstu launum við skattlagningu. Jöfnuður hefur aukist á Íslandi í staðinn fyrir að ójöfnuðurinn fór ört vaxandi á ruglárunum þar á undan. Gini-stuðullinn hefur sömuleiðis lagast.

Tökum uppbyggingu fjármálakerfisins sem mikið hefur verið rætt um. Ríkið hefur bundið samtals um 185 milljarða kr. í stóru bönkunum við endurreisn þeirra í formi eiginfjárframlaga og víkjandi lána. Ef við tökum stöðuna þar í dag er ljóst að ríkið hefur haft mjög góða ávöxtun á því fé sem það varð að binda í þessu verkefni sem er um 250 milljörðum minna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Það má ætla að ríkið fái þessa peninga að fullu til baka og komist frá endurreisn stóru bankanna án nokkurs taps í þeim skilningi að arðgefandi eignir og/eða endurseljanlegar standa fyllilega undir því fé sem ríkið hefur bundið í verkefnið eins og efnahagsreikningar bankanna hljóða upp á í dag. Þeir standa traustum fótum með hátt eiginfjárhlutfall. Það er dálítið annað en það sem formaður Framsóknarflokksins var uppteknastur af á fyrri hluta árs 2009 þegar hann talaði um að annað bankahrun vofði yfir handan við hornið. Þess vegna hlýtur formanni Framsóknarflokksins að vera létt og hann að gleðjast með okkur.

Varðandi framtíðina sem auðvitað er alltaf mest spennandi að ræða bendi ég hv. þingmönnum, bölsýnismönnum alveg sérstaklega, á að lesa nýjustu Peningamál Seðlabanka Íslands. Kannski taka einhverjir alls ekkert mark á honum, (Gripið fram í: Jú, jú.) en það er athyglisvert að fara þar yfir inngangskaflann. Hvað stendur þar? Meiri þróttur í þjóðarbúskapnum, en að vísu versnandi verðbólguhorfur. Og hvað segir …? (Gripið fram í.) Já, já, það er löstur, en hitt er kostur, hv. frammíkallandi, Höskuldur. (Gripið fram í: Hvað með …?) Hvað segir þarna í texta, frú forseti? Ég biðst velvirðingar á að nefna ekki þingmanninn fullu nafni. Það segir, með leyfi forseta:

„Meiri vöxtur einka- og samneyslu og kröftugri viðsnúningur atvinnuvegafjárfestingar utan stóriðju, skipa og flugvéla gerir það hins vegar að verkum að nú er gert ráð fyrir meiri hagvexti á þessu ári en í apríl eða 2,8% í stað 2,3%. Batinn á vinnumarkaði virðist jafnframt vera meiri en áður var reiknað með.“

Þetta er það sem þarna stendur. Og er ástæða ekki til að gleðjast yfir því?

Ferðaþjónustan blómstrar. Við sjáum nokkurn veginn örugglega algert metár í fjölda erlendra ferðamanna og verðmætasköpun í þeirri grein.

Sjávarútvegurinn eykur mjög verðmætasköpun sína. Það er góð makrílvertíð, horfur á góðri loðnuvertíð, auknar veiðar í þorski. Gríðarleg verðmæti fara nánast daglega út frá útflutningshöfnum landsins á norðaustanverðu landinu. Um 1 milljarður kr. í útflutningsverðmætum fór úr höfninni í Neskaupstað fyrir nokkrum dögum á einum sólarhring. Það munar um það.

Landbúnaðurinn sem ýmsir hafa sagt sitthvað misgáfulegt um á undanförnum dögum sækir ört í sig veðrið sem vaxandi útflutningsgrein og stefnir í vel á annan tug milljarða í útflutningsverðmætum, úr fiskeldi, loðdýrarækt, kjöti, sláturafurðum, hrossum o.s.frv.

Tækni- og þekkingargreinar hafa aukið ört hlutdeild sína og hinar skapandi greinar gera það líka.

Formanni Sjálfstæðisflokksins verður tíðrætt um fjárfestingar. Þegar tölur Hagstofunnar eru skoðaðar sést að fjármunamyndun, m.a.s. á lélegasta árinu 2009, varð meiri en öll árin frá 1945–1996. Hún var það. Atvinnuvegafjárfesting án stóriðju, skipa og flugvéla vex um 6,5% á þessu ári og dróst minna saman í fyrra en eldri spár höfðu gert ráð fyrir. Þetta er jákvætt.

Þegar OECD og Eurostat birta lista sína yfir annars vegar OECD-lönd og hins vegar Evrópulönd á fyrri hluta þessa árs, hvað kemur þá í ljós? Aðeins eitt land innan OECD er með meiri hagvöxt en Ísland. Ef þetta er svona auðvelt, hv. þingmenn — það þarf ekki nema smella fingri eins og þið talið stundum hérna — hvers vegna er þá ekki meiri hagvöxtur í öllum hinum löndunum? Ja, það hljóta að vera enn þá verri ríkisstjórnir, ef það er skýringin, í öllum OECD-löndunum nema tveimur. (Gripið fram í.) Nema einu. Ísland er samkvæmt ykkar mælikvarða með næstbestu ríkisstjórnina innan OECD ef þessi mælikvarði er notaður. Það er bara þannig.

Atvinnuleysið sem vissulega er eitt mesta böl okkar og þarf að takast á við er þó að minnka, það er um 1 prósentustigi minna að meðaltali milli mánaða í ár en það var í fyrra. Vinnumagn eykst í fyrsta sinn síðan á miðju ári 2008. Heildarvinnumagn í landinu vex nú um 1–1,5%. Það er í fyrsta sinn síðan á miðju hrunárinu sem vinnumagnið eykst á nýjan leik í landinu. Er það ekki gott? (Gripið fram í.) Það þarf að sjálfsögðu að vaxa hraðar en það er í rétta átt.

Bölmóðurinn um fólksflótta gengur sem betur fer heldur ekki eftir. Hræðslan við að við lentum í reynslu Færeyinga og töpuðum hér stórum hluta okkar ungu kynslóðar hefur sem betur fer ekki gengið eftir. Fleiri flytja heim frá Danmörku á fyrri hluta þessa árs en þangað. (Gripið fram í: Það eru fleiri lönd en Danmörk.) Auðvitað höfðum við öll af þessu áhyggjur. Auðvitað var þetta eitt af óveðursskýjunum sem grúfðu yfir okkur eftir hrunið 2008, en við skulum sameinast um að láta það ekki rætast og sjá til þess að fólkinu haldi áfram að fjölga á Íslandi eins og það gerði með þessari einu undantekningu á hrunárinu 2009. Hverjir skyldu bera einhverja ábyrgð á því? (REÁ: Það hlaut að koma.) (Gripið fram í.)