139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:35]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það er gott að vera kominn aftur í miðju hringiðunnar á Alþingi Íslendinga og verða vitni að því hvað umræðuhefðin hér breytist lítið frá mánuði til mánaðar og frá ári til árs. Þessi umræða hefur verið með hefðbundnu sniði. Stjórnarliðar halda fram í ræðum sínum hálfsannleik í flestum atriðum og þeir fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hafa talað eru að mínu mati ósanngjarnir að mörgu leyti í gagnrýni sinni. Svona hefur þetta víst verið og verður væntanlega áfram.

Mig langar að hefja mál mitt á því að tæpa á þessum atvinnuleysistölum. Hæstv. fjármálaráðherra gleymir og forsætisráðherra líka að þúsundir manna hafa flutt úr landi, hundruð fjölskyldna með börn. Afleiðingar hrunsins hafa sundrað þúsundum fjölskyldna á Íslandi. Það er ein af sorglegri afleiðingum þess. Hér er fjöldi fólks sem hefur horft á eftir börnum sínum og barnabörnum til útlanda í vinnu. Þau hafa flust út. Það er ekki eins og þau séu að skreppa í fjögur ár í nám og ætli svo að koma aftur. Og héðan er líka í auknum mæli — mjög auknum mæli — fólk að flytja úr landi sem skuldar ekki mikið og hefur atvinnu. Þetta er alvarlegt mál og þessum atriðum þarf ríkisstjórnin að fara að sinna með því að reyna að koma hér á stefnu í atvinnumálum og efnahagsmálum sem gerir Ísland áhugavert til að búa á.

Atvinnuleysi hefur vissulega minnkað eitthvað en það er m.a. vegna þess að brottflutningur hefur verið mikill. Það er heldur ekki hægt að miða við hámarkstölur akkúrat á ári hrunsins því að kreppur eru yfirleitt þannig að þær eru mjög djúpar í upphafi og uppgangurinn strax í kjölfarið er yfirleitt kröftugri en langtímavöxtur.

Atvinnuuppbygging hefur verið hæg. Hér verða menn að sjá að fjárfesting á hefðbundinn máta mun ekki duga til þess að koma Íslandi upp úr þessari djúpu kreppu. Það er ekki hægt að rífast hér og bíða eftir álverum árum saman og halda því fram að álver í Helguvík muni skapa 4.000 störf. Það er bara verið að drepa umræðunni á dreif. Það sem ríkisstjórninni ber að gera er að koma hér á fót atvinnustefnu og efnahagsstefnu sem er umgjörð um atvinnulífið í landinu en ekki framkvæmd.

Hér leyfi ég mér að vísa til átaksins Allir vinna. Ég hef sjálfur nýtt mér þessa úrlausn í sumar. Ég get fullyrt að það hefur umtalsverð áhrif að auka atvinnu iðnaðarmanna og auka vöxt í hagkerfinu. Þetta er mjög sniðugt atriði og skilar sér með því að fólk fer út í miklu meiri framkvæmdir og viðameiri en það mundi annars gera vegna þess að til kemur umtalsverð — og ég leyfi mér að endurtaka það orð — umtalsverð endurgreiðsla á fjárútlátum fólks sem gerir heimilunum einfaldlega kleift að nota þá fjármuni í frekari einkaneyslu. Ég tel brýnt að þessu máli verði framlengt og það kynnt frekar. Þetta er af hinu góða. Margt annað er ekki eins gott, en það ber að telja allt upp.

Hér var djúp kreppa og hefðbundnar aðferðir munu ekki duga til. Hefðbundnar aðferðir niðurskurðar og skattahækkana munu ekki nægja þó að þær virki að einhverju leyti. Peningamálastefna Seðlabankans gengur einnig í þá átt að drepa hér niður atvinnulífið. Verðtryggingin mun áfram halda öllum heimilum í landinu í skuldakreppu næstu áratugi. Hér mun verða verðbólga vegna þess að við búum við ónýtan gjaldmiðil. Það er ekki hægt að tala um að gjaldmiðillinn sé stöðugur. Gjaldmiðillinn er einfaldlega í höftum og allt tal um stöðugleika gjaldmiðilsins er algerlega ómarktækt.

Það verður að fara að huga að því að skuldir heimilanna gera ekkert annað en að aukast og 110%-leiðin er nú þegar orðin 115–120% leið hjá þeim sem fóru hana fyrst. Þannig mun það kerfi virka áfram næstu árin. Hvað á þá að gera? Á fólk að fara aftur og aftur og aftur og aftur 110%-leiðina?

Eina leiðin fyrir Ísland til að komast út úr þessari djúpu kreppu, frú forseti, er að hér verði hægt að örva einkaneyslu umtalsvert og gera öllum heimilum í landinu kleift að nýta það fé sem þau fá í tekjur til að örva hagkerfið með neyslu. Slíkt verður helst gert með því að lækka skatta, en einnig, eins og margoft hefur komið fram árum saman, með róttækri niðurfærslu á skuldum heimilanna þar sem þær vísitöluhækkanir sem eru algjörlega siðlausar og hafa átt sér hér stað síðan í hruninu verði færðar til baka. Lífeyrissjóðirnir setja sig upp á móti því og það er tekið mark á því.

Lífeyrissjóðirnir hafa fengið yfir 150 milljarða í verðbætur vegna verðtryggingar frá hruni. Þetta eru fjármunir sem þeir gerðu aldrei ráð fyrir að fá í fjárfestingum sínum í upphafi þannig að það mun ekki hafa áhrif á upphaflegar áætlanir lífeyrissjóðanna en það mun vissulega hafa áhrif á núverandi stöðu þeirra ef þetta verður fært til baka vegna þess að þeir fjárfestu eins og algjörir bjánar í hruninu jafnt og aðrir. En skuldir heimilanna og heimilin eiga ekki að gjalda beint fyrir það.

Hér er líka brýnt að afnema 3,5% lágmarksávöxtunarkröfu lífeyrissjóða. Þessi 3,5% setja gólf undir allt vaxtastig í landinu. Það verður aldrei hægt að bjóða upp á lán á viðunandi kjörum á meðan lífeyrissjóðirnir ráða ferðinni með þessu. Þetta er ekkert í umræðunni og ekkert verið að athuga það.

Afnám verðtryggingar er einfaldlega bráðnauðsynlegt fyrir öll heimili í landinu og fyrir hagkerfið í heild, ekki síst vegna þess að það tryggir jafna áhættu lántaka og lánveitenda. Í hagfræðinni er slíkt einfaldlega nauðsynlegt. Ekki er hægt að afnema áhættu annars aðilans algerlega í viðskiptum því að þá er markaðshagkerfið ekki lengur fúnkerandi.

Gjaldeyrishöftin búum við enn þá við. Afnám þeirra og framtíðarhorfur þess eru ekki beysnar. Seðlabankinn stefnir beinlínis hraðbyri í sama kerfi og var hér fyrir hrun með fljótandi örmynt í litlu hagkerfi. Það fyrirkomulag mun ekki ganga upp. Við höfum brennt okkur á því og allt það sem Seðlabankinn segir um hin svokölluðu þjóðhagsvarúðartæki sem hjálpa þeim gefur bara til kynna að þeir séu að grípa í hálmstrá. Það sem gerist einfaldlega er að það kemur hér verðbólgumæling, öll fyrirtæki í landinu líta á hana og hækka verðskrár sínar í samræmi við það nánast umsvifalaust þannig að allt verðlag hækkar og verðbólgan heldur áfram. Þetta bítur allt í skottið á sér. Við ættum að hafa lært af reynslunni síðan 1980.

Hér verður að fara af stað umræða um nýjan gjaldmiðil. Hér verður af fara af stað umræða um það hvort hægt sé að taka upp erlendan gjaldmiðil beint eða nýja krónu með öðrum undirliggjandi forsendum en núverandi. Þetta er bráðnauðsynlegt. Það er ekki boðlegt fyrir þjóðina að standa frammi fyrir því að hér skuli setið og beðið eftir hugsanlegri evru eftir kannski átta til tíu ár og ekkert sé gert í millitíðinni. Eins og staðan er í dag er meira að segja ólíklegt að evran verði nokkurn tímann tekin hér upp í samvinnu við Evrópusambandið.

Ég verð að viðurkenna að mér fannst málflutningur formanns Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál ótrúlegur. Sá flokkur hefur ekki boðið upp á neitt annað en gömlu aðferðirnar sem brugðust og að þær skuli endurteknar. Þessi síendurtekna þenslupólitík, að hér skuli rokið af stað og allt sett í botn og keyrt áfram í nafni hagvaxtar sem hrynur svo með reglulegu millibili — við þurfum að fara að hugsa öðruvísi um efnahagsmálin. Við þurfum að huga að jafnari hagvexti og stöðugleika til langs tíma en ekki með skammtímasjónarmið að leiðarljósi.

Við búum líka við þá stöðu á Íslandi að kreppa og efnahagsvandi er mjög vaxandi á heimsvísu sem getur hugsanlega haft mjög slæm og alvarleg áhrif hér. Það er nærri því 50% atvinnuleysi á Spáni hjá aldurshópnum undir þrítugu. Slíkt atvinnuleysi er ekki eingöngu slæmt fyrir hagkerfi landa heldur er það algjör púðurtunna hvað varðar stjórnmál og samfélagsmál. Þannig mun þetta verða um allan heim. Íslendingar verða einfaldlega að vara sig á því að í umhverfi nágrannalandanna munu hugsanlega alls konar pólitísk öfgaöfl og pólitískar hræringar fara af stað sem geta haft slæm áhrif á allt efnahagsumhverfi okkar. Þessu þarf einfaldlega að veita meiri athygli.

Hér hafa verið deilur um stjórn fiskveiða og er engin sátt um það mál. Fiskveiðistjórnarkerfið er einfaldlega eitt þeirra mála sem Alþingi Íslendinga er ókleift að leysa og mun verða ókleift að leysa. Því höfum við í Hreyfingunni lagt fram þingsályktunartillögu um að þau frumvörp sem nú eru í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, frumvarp ríkisstjórnarinnar og frumvarp Hreyfingarinnar, fari beint í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin sker úr um hvora aðferðina hún vill viðhafa. Það er hreinlegast og einfaldast því að við vitum að annars fer allur tími þingsins í að karpa um þessi tvö mál fram að næstu kosningum alla vega og tíma þingsins er betur varið í eitthvað annað en árangurslaust karp.

Ég leyfi mér líka að vitna til þess hvað varðar atvinnuuppbyggingu að Hreyfingin lagði fram frumvarp um að allur afli á Íslandsmiðum færi á innlenda uppboðsmarkaði til þess að íslensk fyrirtæki og fiskverkun gætu boðið í þann afla og búið til störf. Því var hafnað af meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og í rauninni af öllum nefndarmönnum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd algjörlega án málefnalegs rökstuðnings (JónG: Rangt.) — algjörlega án málefnalegs rökstuðnings. Þetta segir meira en segja þarf um hvar áherslur manna liggja, alla vega þegar þær eru óopinberar.

Alvarlegasta vandamálið er kannski þær gríðarlegu skuldir sem ríkissjóður býr við þar sem bráðum fara hátt í 20% af tekjum ríkissjóðs í vaxtagreiðslur eingöngu. Það er fáheyrt hlutfall og því verður með einhverjum hætti að taka á. Það að menn skuli svo hæla sér fyrir að taka lán á alþjóðamarkaði á góðum kjörum er hálfsannleikur því að það lán er tekið með ábyrgð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lánveitendur vita (Forseti hringir.) að það er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem mun ráða öllu um endurgreiðslur á því.