139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að eitt sinn hafi verið sagt í þessum sal að mesta efnahagsbölið væri blaðrið í þáverandi forsætisráðherra. Ég ætla ekki að taka þau orð mér í munn, en þegar ég hlustaði á orð hæstv. ráðherra og stjórnarliða þá velti ég því fyrir mér hvort þessir hæstv. ráðherrar væru í raun geimverur eða hvort þjóðin væri það vegna þess að hér er fólk ekki á sömu plánetu. Ég vek athygli á því að ef menn hafa núna samband við fjölmiðlavaktina eða leita á Google og velta upp orðum hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra aðeins aftur í tímann þá sjá þeir þessar sömu ræður hvað eftir annað.

Ég vek athygli á því að 13. mars 2010 sagði hæstv. fjármálaráðherra að botninum yrði náð nokkru seinna. Núna í febrúar á þessu ári kom hæstv. forsætisráðherra og ætlaði að skapa allt að því 15 þús. ný störf. Þá horfðu menn til þess sem hæstv. fjármálaráðherra gerði ekkert úr áðan en það eru búferlaflutningar fólks til annarra landa. Hann fann eitt land einn ársfjórðung þar sem Íslendingar voru í plús og talaði niður til allra sem höfðu áhyggjur af því að fólk væri að fara frá landinu.

Þá var sett nefnd, virðulegi forseti, sem mér finnst vera mjög dæmigert fyrir þessa ríkisstjórn. Ég held að ég sé í þeirri nefnd og við erum búin að hittast mjög oft frá því í febrúar á þessu ári. Niðurstaðan er ekki komin en ég get alveg lofað ykkur því að því miður mun sú niðurstaða ekki skila neinum 15 þús. störfum. Reyndar eru menn þar ekki, eins og almennt, að taka á þeim málum sem skipta máli.

Ég verð að vekja athygli á því að hér kom hæstv. fjármálaráðherra og talaði í raun um ágæti tveggja hluta. Annars vegar var það efnahagsstefnan eða efnahagsáætlunin sem var samþykkt af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hins vegar fór hann ásamt hæstv. forsætisráðherra yfir hversu skynsamlegt það var að samþykkja neyðarlögin og fara þá leið sem erlendir aðilar bentu á að var afskaplega skynsamleg, þ.e. láta bankana fara á hausinn.

Virðulegi forseti. Var það hæstv. fjármálaráðherra sem studdi þessar aðgerðir? Reyndar greiddi hæstv. fjármálaráðherra, sem var þá í stjórnarandstöðu, ekki atkvæði með neyðarlögunum. Reyndar lofaði hæstv. fjármálaráðherra kjósendum því að slíta samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Að vísu lofaði hann því líka að hann mundi aldrei standa að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu þannig að kannski er alveg samræmi þarna á milli. En þetta er það tvennt sem hæstv. fjármálaráðherra er að hreykja sér af núna.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, af því að allir vildu Lilju kveðið hafa, að hæstv. fjármálaráðherra ætti að fara yfir það að menn þurfi að viðurkenna staðreyndir og væntanlega mistök sín og að núverandi seðlabankastjóri vildi fara írsku leiðina og bjarga bönkunum.

Virðulegi forseti. Hér talaði hæstv. forsætisráðherra um mikilvægi fjárfestinga og hvað fjárfestingartækifærin væru mörg. Hafið þið séð einhver fjárfestingartækifæri sem ríkisstjórnin hefur ekki hræðst? Ég vil gleðja hæstv. ríkisstjórn: Tækifærið sem kom af því að erlendur aðili ætlaði að kaupa jörð á Norðausturlandi — ég held að sú hætta sé liðin hjá. Ég held að hann sé hættur við ef marka má síðustu fregnir. Það er líka búið að losa um það að heilbrigðisstarfsmenn geti hugsanlega fengið vinnu við það að fá innflutning á sjúklingum til landsins. Ríkisstjórninni tókst að koma í veg fyrir það. Það er alveg sama hvað hæstv. forsætisráðherra talar um að verið sé nýta tækifærin varðandi orkuauðlindirnar þá tala staðreyndirnar sínu máli.

Ég vil líka minna á, af því að menn gleyma kannski, að það var einhvern tímann til eitthvað sem hét stöðugleikasáttmáli. Þar var farið yfir það sem við erum öll sammála um, áætlun um að skapa atvinnu í landinu, hagvöxt og fjárfestingar ásamt ýmsu öðru. Það hefur komið fram í viðtölum og skrifum forustumanna þeirra sem skrifuðu undir með ríkisstjórninni að allt sem snýr að þessum þáttum var svikið. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki komið hér upp og talað með þeim hætti sem hún gerir.

Sem betur fer eru gríðarlega mörg tækifæri. Við skulum nýta þau vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir íslenska þjóð. Við verðum að fá atvinnu, við verðum að sjá hjól efnahagslífsins (Forseti hringir.) snúast sem hraðast, við þurfum hagvöxt og fjárfestingu. Þar er hæstv. ríkisstjórn helsti þrándur í götu.