139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa mjög mikilvægu umræðu um atvinnumál þjóðarinnar. Sú staðreynd blasir við okkur að 16 þús. Íslendingar eru án atvinnu í dag og þúsundir hafa á síðustu tveimur árum eða svo þurft að hverfa af landi brott vegna þess að hér hefur ekki verið atvinnu að hafa. Þetta mál brennur þess vegna á þúsundum íslenskra fjölskyldna. Þegar við í minni hlutanum á Alþingi bendum á þessar staðreyndir erum við sökuð um bölsýni og bölmóð og að við séum að tala kjarkinn úr þjóðinni.

Jú, við höfum heyrt þetta áður í mikilvægum umræðum, t.d. í Icesave-málinu. Þar talaði stjórnarandstaðan af bölsýni og bölmóði um það mál en á sama tíma hreykir ríkisstjórnin í þessari umræðu sér af góðum árangri í ríkisfjármálunum. Ef ríkisstjórnin hefði fengið sitt fram í hinum svokölluðu Svavarssamningum hefðu árlegir vextir vegna þeirra Icesave-samninga verið 42 milljarðar. Það er því spurning hver getur hreykt sér eins og hani á hól yfir kraftaverkum, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur tekið til orða um störf ríkisstjórnarinnar frá því að hún tók við árið 2009.

Það eru sannarlega tækifæri til staðar og ég ætla ekki að falla í þann fúla pytt eins og stjórnarliðar hafa gert hér þar sem þeir hafa réttlætt tilveru ríkisstjórnarinnar, reynt að endurskrifa söguna um störf sín, heldur vil ég að við horfum fram á veginn. Það eru fjölmörg tækifæri sem íslensk þjóð og íslenskt atvinnulíf hefur í þeirri stöðu sem blasir við okkur í dag.

Í aðdraganda síðasta flokksþings framsóknarmanna var unnin allítarleg skýrsla um stöðu atvinnumála á landinu í dag Við áttum þar samtöl við forustumenn í íslensku atvinnulífi og það verður að segjast eins og er að trúlega hafa aðstæður allra grundvallaratvinnuvega landsins, eins og sjávarútvegs, ferðaþjónustu, iðnaðar, virkjana og hinna skapandi greina, sjaldan verið eins góðar og í dag. Mig langar að nefna í nokkrum orðum að sjávarútvegurinn býr til að mynda við mjög góðar aðstæður á mörkuðum en því miður vofir yfir þeirri atvinnugrein sú óvissa sem ríkisstjórnin hefur kallað fram með óljósum áætlunum um breytingar á þessari mikilvægu atvinnugrein sem 30 þús. Íslendingar hafa með einum eða öðrum hætti lífsviðurværi sitt af.

Ég nefni líka ferðaþjónustu þar sem eru gríðarleg tækifæri sem og í uppbyggingu iðnaðar. Ef maður má nota orðið virkjun hér eru margir álitlegir kostir í þeim efnum þó að við þurfum að sjálfsögðu að ganga varlega um náttúruna, okkar græna land, en þá horfum við upp á ríkisstjórn sem er svo ósamstiga að fjárfesting og hugmyndir til atvinnusköpunar á þessum sviðum hafa því miður lítt eða ekki orðið. Þess vegna horfum við upp á að 16 þús. Íslendingar eru án atvinnu í dag. Þetta er nöturleg staðreynd.

Við horfum líka upp á að menntakerfið hefur ekki sinnt mikilvægum greinum samanber hugverkaiðnaðinn. Þar getum við nefnt fyrirtæki eins og CCP, Marel og Actavis, auk þess sem skattumhverfi þeirra fyrirtækja er einfaldlega ekki nægilega gott eins og sakir standa. Eins og formaður Framsóknarflokksins benti á áðan hefur þessi ríkisstjórn slegið Íslandsmet í breytingum á skattkerfinu. Yfir hundrað breytingar hafa átt sér stað á skattkerfinu á undraskömmum tíma og með mjög litlum fyrirvara. Þetta hefur leitt til þess að hvati til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi hefur minnkað og við höfum farið akkúrat í þveröfuga átt við það sem við hefðum átt að gera. Við eigum að skapa hér skattkerfi sem eykur hvatann á fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Þannig munum við fjölga störfum, þannig mun atvinnulausum fækka hér á landi og þannig munu tekjur ríkis og sveitarfélaga aukast.

Þessari ríkisstjórn, sama hvað hún reynir að endurskrifa söguna í þessari umræðu, hefur einfaldlega ekki tekist það verkefni. Þess vegna verður að breyta um kúrs. Við þurfum nýja áætlun, við þurfum (Forseti hringir.) framtíðarsýn en ekki ríkisstjórn sem horfir stöðugt í baksýnisspegilinn.