139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég hef hlustað á þær ræður sem fluttar hafa verið í morgun og reynt að átta mig á því um hvað umræðan snýst í raun og veru, á hvaða leið stjórnarandstaðan er fyrst og fremst með þessa umræðu hjá sér. Ég skil hreinlega ekki hvað hún er að fara. Hvar eru tillögurnar? Hvar er krafturinn og þrótturinn sem á að einkenna almennilega stjórnarandstöðu? Hvar eru hugmyndirnar? Hvers vegna er liðið svona gjörsamlega ónýtt í þeirri umræðu sem hér er í gangi að það er ekki einu sinni hægt að takast málefnalega á um hlutina? Hvers vegna fara menn með ósannindi úr þessum ræðustól?

Ég heyrði í morgun ekki betur en að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segði að um 16 þús. manns væru án atvinnu á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun sem ég ætla að vona að hafi verið vitnað í — reyndar hefur Sjálfstæðisflokkurinn ágætisutanumhald um persónuupplýsingar á sínum vegum eins og oft hefur komið fram. Ég ætla þó að vona að ekki sé verið að vitna í þær. En hjá Vinnumálastofnun kemur fram að í júní hafi verið 11.704 atvinnulausir á Íslandi og fækkaði um 850 á milli mánaða. Hvers vegna er ekki hægt að takast á um hlutina eins og þeir blasa við? Hvers vegna hélt flokksblað sjálfstæðismanna því fram í morgun að fjárfestingar á Íslandi væru 10% af vergri landsframleiðslu og verði það þegar tölurnar sýna allt annað, þegar staðreyndirnar sýna allt annað? Hvers vegna er ekki hægt að takast á um staðreyndir eins og þær blasa við í stað þess að fást stöðugt við einhvern tilbúning? Það er engin rökræða. Rökræðan bíður hnekki í þessari umræðu fyrst og fremst.

Tölurnar sýna að fjárfestingar á Íslandi voru um 12,9% á síðasta ári, verða 14,6% á þessu og er spáð 16,5% af vergri landsframleiðslu á því næsta. Við erum á svipuðu róli og Danmörk og Bandaríkin og við erum yfir Bretlandi. Hvers konar umræðu er boðið upp á þegar ekki er hægt að takast á með málefnalegum hætti um staðreyndir sem blasa við? Það er ekki hægt að fara fram á minna en að eiga málefnalega rökræðu en ekki byggða á fölskum tölum og röngum upplýsingum. Við komumst ekkert áfram með því.

Ég er helst á því að það hafi skilað sér í umræðunni það sem af er morguns að hrunið sem varð árið 2008 hafi verið helvíti fínt, ágætlega vel heppnað efnahagshrun, nánast fullkomið, glæsilegt efnahagshrun. Það hrundi allt sem hrunið gat. Atvinnuleysi fór í hærri hæðir en við höfðum séð áður, bankakerfið var ónýtt. Ísland var einangrað. Allt það vonda sem hefur gerst á Íslandi gerðist eftir hrunið er niðurstaðan af ræðum morgunsins.

En hvar er viðmiðunin og við hvað ætlum við að miða okkur, virðulegi forseti, þegar við erum að reyna að staðsetja okkur í dag? Ef við flettum í dagblöðum og fjölmiðlum (Gripið fram í: Mogganum.) frá því fyrir rúmum tveim árum er hægt að sjá ýmislegt. Eftir það efnahagshrun sem hér varð er hægt að sjá hvar við vorum stödd og þá er hægt að sjá hvaðan við vorum að koma. Þá er hægt að átta sig á raunverulegri viðmiðun, hvaða árangri við hefðum náð ef þá einhverjum (Gripið fram í: Miðaðu við fyrri …) og það er ágætt að vitna … (Gripið fram í: Miðaðu við fyrri …)

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Ég hnaut um laugardaginn 11. október 2008 og um hvað var verið að fjalla í íslenskum fjölmiðlum þann dag. Þar var sagt frá því að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hefði fengið sáttabréf frá Bretlandi, frá félaga sínum Gordon Brown, og það hefði kveðið við sáttatón í bréfinu. Það var að sjálfsögðu verið að ræða um Icesave og Geir á að hafa sagt orðrétt, með leyfi forseta:

„Það hefur enginn íslenskur ráðamaður haldið því fram að við mundum ekki standa við skuldbindingar okkar,“ sagði Geir H. Haarde þennan 11. október árið 2008.

Það kom annar pólitískur syndaselur fram á sviðið þennan dag, Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, og sagði að það hefði verið vond lesning að fylgjast með því hvernig Seðlabankanum hefði verið stjórnað á undanförnum mánuðum og árum og að erlendir bankar væru að loka á Ísland. En Halldór bætti við, með leyfi forseta:

„Við höfum brennt allar brýr að baki okkur. Við þurfum á alþjóðlegum fjármálastofnunum að halda og menn mega ekki vera hikandi í að koma af stað fjárfestingum í orkumálum og iðnaði og láta ekki lögformlegt ferli þvælast fyrir okkur.“

Þar þekki ég minn mann. Þar er karl kominn alveg grímulaus, látum ekki lögformlegt ferli tefja fyrir slíkum málum. Grípum aftur til gömlu leiðanna, virkjum eins og við getum. Ég hef ekki getað betur heyrt á málflutningi stjórnarliða í dag og undanfarna daga en að búið væri að finna alveg nýja mælieiningu. Nú mæla menn í virkjunum, atvinnuleysi upp á 80 milljarða er þrjár virkjanir, sagði hv. þm. Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Er það viðmiðunin, hve mörg „virk“ eru í atvinnuleysi? Hvað voru mörg virk í hallanum á ríkissjóði á árunum 2008 til 2009? Hvað var Icesave-vitleysan sem þau skildu eftir handa okkur mörg virk? Er þetta viðmiðunin sem við ættum að nota? Nei, viðmiðunin er þaðan sem við lögðum af stað og þar sem við erum. Það er það sem við eigum að miða okkur við og það eru pólitískt blindir einstaklingar sem neita að viðurkenna að árangur hafi náðst í efnahagsstjórn á Íslandi.

Laugardaginn 11. október var í erlendum fjölmiðlum talað um Ísland sem Simbabve, ekki bara efnahagslega heldur líka pólitískt. Fólk var varað við því í erlendum viðskipta- og ferðatímaritum að ferðast til Íslands. Það var varað við því. Það voru varnaðarorð: Farið ekki til Íslands. Erum við enn þar? Ég held ekki. Seðlabankastjórinn birtist í fjölmiðlum laugardaginn 11. október 2008 og hvað hafði hann þá fram að færa, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins? Hann beindi tilmælum til manna og Seðlabankinn sendi út tilkynningu um það hvernig ætti að nota gjaldeyri. Notum ekki gjaldeyri nema brýna nauðsyn beri til, til að kaupa lyf og matvöru og alls ekki annað. Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, sagði þá að Ísland ynni að því á fullu að fá gjaldeyri til landsins. Og hvaðan á hann að koma? spurði fréttamaðurinn. Frá útlöndum, sagði forsætisráðherra. Það var frétt. Auðvitað á hann að koma frá útlöndum.

Þetta voru fréttirnar þennan dag, 11. október 2008. Það er það sem við miðum okkur við. Þaðan lögðum við af stað upp úr hruninu. Þetta var viðspyrna íslenskra stjórnvalda, íslensks almennings, íslenskra fyrirtækja og heimila. Þarna var viðspyrnan. Þaðan lögðum við af stað og hingað erum við komin. Þeir sem ætla að halda því blákalt fram með réttum upplýsingum, eða röngum eins og menn hafa gert í morgun, að enginn árangur hafi náðst, við séum enn á sama stað og jafnvel á hraðri leið neðar en þarna var, eru pólitískt blindir. Þeir neita að viðurkenna staðreyndir sem blasa við hverjum einasta manni. Það er ekki hægt að taka þátt í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað í morgun á grunni þeirra talna og gagna sem eru vísvitandi bæði ósönn og röng, þau gögn sem leiðtogar stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) hafa fært hér fram. Ég bið um rökræðu, ég skal takast á við stjórnarandstöðuna í sanngjarnri rökræðu (Forseti hringir.) en hún verður að byggja á réttum gögnum.