139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum efnahags- og atvinnumál. Þegar ég hóf minn pólitíska feril árið 2003 fór Framsóknarflokkurinn fram undir slagorðunum: Vinna, vöxtur, velferð. Ég tel að þau slagorð hafi raunar endurspeglað kjarnann í framsóknarstefnunni, framsóknarhugmyndafræðinni.

Á þeim tíma fékk ég einmitt spurningu frá sjálfstæðismanni um af hverju við værum alltaf að tala um vinnu, það væri náttúrlega vöxtur sem skipti mestu máli. Að mínu mati er alveg á hreinu að það verður ekki raunverulegur vöxtur nema fólk sé með vinnu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem vísað hefur verið töluvert til í þessari umræðu, viðurkenndi nýlega — eftir að hafa mjög lengi fyrst og fremst talað fyrir hagvexti en ekki störfum — og lagði fram greinargerð þess efnis að það yrði ekki raunverulegur vöxtur ef engin vinna væri fyrir fólkið. Ef engin vinna væri þá erum við ekki að tala um raunverulegan vöxt og þá erum við ekki að tala um varanlega velferð.

Þetta er ástæðan fyrir því að við framsóknarmenn höfum lagt svona mikla áherslu á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Fólk er að drukkna í skuldum og fólk sem er að drukkna í skuldum er ófært um að fjárfesta. Það er ófært um að ráða fólk í ný störf, það er ófært um að hækka laun starfsmanna og það er ófært um að auka sína eigin neyslu og bæta þannig lífskjörin. Þetta sjáum við í tölum sem hér var kallað eftir, raunverulegum tölum. Við sjáum það í 100% aukningu gjaldþrota fyrirtækja. Við sjáum það í umtalsverðri aukningu fólks sem er í verulegum fjárhagsörðugleikum og við sjáum það í nýjustu tölum frá bönkunum þar sem þeir viðurkenna að búið er að afskrifa aðeins um 25 milljarða af heimilunum, aðeins 25 milljarða. Þeir vilja hins vegar gjarnan tala um hærri tölu, en það voru dómstólarnir eftir að neytendur þurftu sjálfir að sækja mál sín fyrir dómstólunum sem tryggðu að þeir fengju leiðréttingu og lánin væru í samræmi við íslensk lög. Við verðum að taka á skuldavandanum ef við ætlum að búa til störf og skapa vinnu á Íslandi.

Fyrir stuttu hittust allir helstu seðlabankastjórar í heimi í Jackson Hole í Bandaríkjunum og þar flutti Christine Lagarde, nýr forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sína fyrstu meiri háttar ræðu sem forstjóri sjóðsins. Þegar ég hafði lesið ræðuna sagði ég að það sem Christine Lagarde væri að boða væri framsóknarstefnan á heimsvísu. Þar talar hún um mikilvægi þess að skapa störf og draga úr skuldum, þetta séu lykilatriði til að byggja upp varanlegan og sjálfbæran vöxt í heiminum.

Hún talaði líka um að mikilvægt sé einmitt að hafa í huga þegar við erum að takast á við ríkisfjármálin að við þurfum að taka ákvarðanir sem tryggja okkur varanlega hagræðingu til framtíðar þar sem við komum í veg fyrir að sjálfkrafa vöxtur sé á útgjöldum ríkissjóðs. Við höfum líka séð það af reynslu okkar Íslendinga að við getum ekki skattlagt okkur út úr þessum vanda. Við þurfum því að horfa til þess að auka tekjurnar, ekki með skattahækkunum, ekki með 100 mismunandi breytingum á skattkerfinu sem þarf tæplega 180 glærur til að kynna fyrir innlendum og erlendum fjárfestum heldur að auka tekjur sem verða til vegna aukinnar verðmætasköpunar í samfélaginu. Við verðum að tryggja í sambandi við útgjöld að horfa lengra fram í tímann og hætta þeirri skammsýni sem hefur einkennt niðurskurð stjórnvalda. Það þarf að taka á þeim þáttum sem munu draga varanlega úr útgjöldum ríkissjóðs. Þar vil ég benda á mjög stóra þætti sem við getum skoðað, t.d. í heilbrigðiskerfinu eins og tilvísunarkerfi, í menntakerfinu er hægt að skoða sameiningu háskóla og horfa til nýrra úrlausna hvernig við getum dregið saman til framtíðar en um leið aukið vöxt í dag vegna þess að það er það sem við þurfum að leggja áherslu á, skuldavandann, atvinnumálin og þannig tæklum við efnahagsvandann — vinna, vöxtur, velferð.