139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða. Að mínu mati var eitt það áhugaverðasta að ákveðins samhljóms gætti á milli formanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, og hæstv. fjármálaráðherra, formanns Vinstri grænna. Þessir tveir ágætu þingmenn voru sammála um að það væru tímamót. Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði um nýtt upphaf og hæstv. fjármálaráðherra talaði um að nú væri kominn tími til að draga strik í sandinn. Ég er sammála því. Við skulum draga strik í sandinn og horfa til þess að nú sé nýtt upphaf. Við skulum veita fólkinu í landinu von. Hér býr ung, vel menntuð þjóð með sterkan vilja til að skapa eigin tækifæri. Við eigum sterka, góða innviði í skólakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu og prýðilegar náttúruauðlindir. Við skulum nýta þær náttúruauðlindir.

Við þurfum að tala um það í þingsalnum hvernig samfélag við viljum, hvaða markmið við höfum með því sem við gerum. Ég tel að við eigum að stefna að því að hér sé samfélag jafnra tækifæra þar sem fólk hefur tækifæri til að mennta sig og njóta ávaxta eigin framtaks, fólk hafi frelsi til að skapa sín eigin tækifæri. Það er það sem Íslendingar vilja, að mínu mati. Með þessu náum við fram bættum lífskjörum og sterkri stöðu íslensks samfélags.

Hvað þarf að gera? Við þurfum að lækka skatta. Við þurfum að sækja fram og skapa fyrirtækjunum þær aðstæður að þau geti fjölgað starfsfólki sínu, vaxið og dafnað. Við þurfum að eyða óvissu í sjávarútvegi, landbúnaði og í atvinnulífinu yfirleitt og eyða þeirri óvissu að íslensk stjórnvöld séu sífellt að hringla með skattumhverfi fyrirtækja hér á landi. Við þurfum að afnema gjaldeyrishöftin. Það verður mjög erfitt og sársaukafullt fyrir alla Íslendinga en við þurfum hins vegar að horfast í augu við að það er það sem þarf að gera. Við þurfum einfaldlega að segja fólki að það verði erfitt, við þurfum að gera áætlun um hvernig það verður gert, horfast í augu við það stóra verkefni og fara í það.

Ég vil ekki halda áfram á skattahækkunarleið Samfylkingar og Vinstri grænna. Við skulum draga strik í sandinn og hætta á þeirri leið. Ég vil ekki að við höldum áfram að tapa tækifærum vegna úrræðaleysis stjórnvalda, skoðanaágreinings innan ríkisstjórnarflokkanna sem leiðir til þess að fjárfestar hrekjast á brott. Við skulum draga strik í sandinn, horfa til nýs upphafs og breyta þessum vinnubrögðum. Við þurfum að draga strik í sandinn varðandi umhverfi fyrirtækjanna, eyða óvissu og hjálpa þeim að vaxa og dafna. Við eigum ekki að halda áfram með gervilausnir á skuldavanda heimilanna sem hafa í för með sér að heimilin eru að eyða öllum sínum ráðstöfunartekjum til niðurgreiðslu skulda og hafa ekkert borð fyrir báru. Við þurfum að horfa til annarra leiða varðandi heimilin.

Við þurfum að draga strik í sandinn varðandi landflótta og atvinnuleysi. Við þurfum að horfa á nýjar leiðir þar. Ríkisstjórnin hefur ekki náð árangri á þeirri leið sinni og ég get ekki séð að nokkuð sé í farvatninu þrátt fyrir þau fjölmörgu störf sem hæstv. forsætisráðherra reifaði að væru í pípunum. Ég get ekki séð að það girði fyrir að fólk haldi áfram að fara úr landi, því miður.

Hæstv. forseti. Við skulum sammælast um að draga strik í sandinn, horfa til framtíðar með það að leiðarljósi að vekja von í brjósti fólks um að það sé virkilega björt framtíð hér á landi. Ég hef sannfæringu fyrir því en við verðum að láta af þeim vinnubrögðum og þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur framfylgt með hörmulegum afleiðingum eins og allir sjá; heimilin í landinu (Forseti hringir.) eru mjög illa stödd og landflótti er viðvarandi. Nýtt upphaf er lausnin.