139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir þær athugasemdir sem hv. þm. Pétur H. Blöndal reifaði um málsmeðferðina og málshraðann. Það er kannski orðin gömul tugga að við kvörtum yfir því með hvaða hætti mál komi inn í þingið og þeim vinnuhraða sem er ætlast til að þingmenn samþykki. Auðvitað geta komið upp mál, eins og t.d. þetta, sem þarf að hraða í gegnum þingið, sérstaklega þegar það gleymdist hér í sumar, en við eigum ekki að líta á það sem sjálfsagðan hlut að samþykkja slíkt. Við í félagsmálanefnd höfum tekið harkalega afstöðu gagnvart frumvörpum sem koma þannig inn. Ég tel að þingið þurfi í heild að grípa til ráðstafana til að stemma stigu við þessum vinnubrögðum í ráðuneytunum. Við eigum ekki að samþykkja þessi vinnubrögð og vísa ég í skýrslu þingmannanefndarinnar sem samþykkt var fyrir ári.

Ég vil ljá máls á því að við förum í smáumræðu í vetur um hugmyndafræðina á bak við hlutaatvinnuleysisbætur. Eftir efnahagshrunið þurfti að sjálfsögðu að grípa hratt til aðgerða varðandi ýmsa þætti. Atvinnuleysi rauk upp og þess vegna þurfti að grípa til ýmissa aðgerða. Nú eru hins vegar tvö ár frá því að hrunið varð og við þurfum að byrja á því að taka ákvörðun um hvort hlutaatvinnuleysisbætur eigi að vera varanlegar í bótakerfinu. Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin þurfum við að fara yfir það hvaða kostir og gallar felast í þessu út frá reynslunni og út frá því hvernig framkvæmdin er í öðrum löndum þar sem þetta tíðkast.

Gallinn við það að hraða málum hér í gegn er að sjálfsögðu sá að ekki gefst tími til að fara í grundvallaratriðum djúpt ofan í málið, ofan í það hvernig við sjáum málin til framtíðar og hvort þetta sé rétt leið. Ég efast svo sem ekkert um það síðasta en víða þurfum við að vanda okkur og passa að þær ákvarðanir sem teknar voru í miklum flýti og mál sem fóru með miklu hraði í gegnum þingið festist ekki í löggjöf okkar án þess að við förum sérstaklega yfir hvort það sé í raun og veru sú stefna sem við viljum.

Þetta er það sem ég tel að félags- og tryggingamálanefnd hefði átt að skoða. Þar sem tími gafst ekki til þess verður það hlutverk nýrrar velferðarnefndar. Ég tel mjög mikilvægt að þetta atriði sé á vinnulista hennar.

Að öðru leyti tel ég ekki rétt að fjalla frekar um þetta mál. Ég vek athygli á umsögn fjármálaráðuneytisins um það á sínum tíma. Frumvarpið leiðir til 1.250 millj. kr. útgjaldaaukningar fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári og því til viðbótar mun 100 millj. kr. kostnaður vegna breytinga á heildartíma bótaréttar í tengslum við vinnumarkaðsúrræði dreifast á næstu tvö til þrjú ár. Það er rétt að allir sem taka ákvörðun um afgreiðslu þessa frumvarps hafi það í huga.