139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og yfirferð. Hv. þingmaður benti á atriði sem er einmitt það sem ég vildi gjarnan skoða. Hvernig er þetta framkvæmt í öðrum löndum? Ég veit að þetta er í gangi í Þýskalandi. Ég reyndi í morgun fyrst að líta eftir því hvernig framkvæmdin er þar. Ég náði ekki að fá tæmandi upplýsingar á netinu þannig að ég veit ekki miklu meira en að þetta er til þar og búið að vera lengi. Ég vildi gjarnan skoða það.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að fara í gegnum þær ráðstafanir sem gripið var til eftir hrun í miklum flýti, í mikilli neyð, og skoða hvort þær eiga rétt á sér. Eitt af því er vaxtatekjur, þær virka mjög harkalega á bætur almannatrygginga. Neikvæðar vaxtatekjur geta jafnvel skert bætur almannatrygginga vegna þess að menn fóru yfir í að taka 100% af vaxtatekjum í staðinn fyrir 50% þegar hrunið varð. Það var ákveðin neyðarráðstöfun. Þar fyrir utan var opnað fyrir upplýsingar frá bönkum um fjármagnstekjur sem koma í veg fyrir að menn geti falið þær fyrir skattinum, og sérstaklega Tryggingastofnun, því að það var búið að borga skatt af þeim tekjum.

Það er alveg hárrétt að við þurfum að skoða þetta miklu betur. Fyrir utan það að skipuleggja starfið betur hérna með aðstoð verkfræðinga sem hafa til þess skipurit færum við í gegnum það sem gert var þarna með miklu hraði eftir hrun og í mikilli neyð og fyndum út hvort ekki væri komin ástæða til að bakka með ýmislegt. Vil ég þar nefna vaxtatekjur sem skerða bætur hjá Tryggingastofnun.