139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa stuttu athugasemd. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessi ræða mín áðan varðar ekki bara þetta mál, heldur þau mál almennt sem fóru í gegnum þingið í miklum flýti í kjölfar efnahagshrunsins.

Ég hef ekki nákvæma útlistun á því í hvaða farveg slíkt ætti að fara. Hins vegar er algjörlega ljóst að frumkvæðið þarf að koma frá okkur, þingmönnum sjálfum. Við þurfum þá að búa til lista yfir þau atriði sem við teljum rétt að byrja á og reyna að koma þeim inn í þingsályktunartillögu, ef það þarf, eða einfaldlega að nefndum þingsins verði falið að vinna málið og að forsætisnefnd stýri þeirri yfirferð.