139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að blanda sér í umræðuna. Hann minntist á atriði varðandi sjávarútveginn og sérstaka heimild í lögum til handa þeirri atvinnugrein vegna tímabundinna breytinga á því hvernig aflast. Ég þekki til þess að aðrar atvinnugreinar hafa óskað eftir viðræðum við ráðuneytið um hvort þær gætu einnig komist inn í slíkar heimildir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi að breyta þessu lagaákvæði með það fyrir augum að aðrar atvinnugreinar komist þar að.

Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir hlý orð í garð nefndarinnar. Það hefur verið gríðarlega skemmtilegt að starfa í nefndinni og sjá að hægt er að vinna með þeim hætti í þinginu þannig að allir leggist á eitt við að gera rétt. Það er hlutverk þessarar löggjafarsamkundu að lagfæra lögin og ég tel að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir eigi hrós skilið fyrir það starf sem þær hafa stýrt í nefndinni og það sýnir fram á að hægt er að taka upp önnur, betri og bætt vinnubrögð í þinginu. Það vekur manni von í brjósti um að hægt sé að vinna hlutina á annan veg en maður sér oftast hér í þinginu.

Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann tók vel í þá hugmynd að fara í rannsókn á því með hvaða hætti hlutaatvinnuleysisbótunum er komið í kring í öðrum löndum, hvernig hann sér fram á að slík vinna fari fram. Er það þá þannig að ráðuneytið mundi hefja rannsóknarvinnu og undirbúa málið fyrir nýja velferðarnefnd?