139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

námsstyrkir.

734. mál
[14:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er vart hægt að láta þetta mál fara órætt í gegnum þingið á þessu stigi, en um er að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um námsstyrki. Ákveðnar breytingar hafa hlotið nokkra umræðu í nefndinni. Það er mjög mikilvægt að við höldum vel utan um það með hvaða hætti námsstyrkir eru greiddir út, einfaldlega vegna þess að við erum að ræða um almannafé.

Eitt mál var talsvert til umræðu á síðasta þingi og varðaði þá einstaklinga sem ekki hafa náð 18 ára aldri og eru komnir í háskóla. Ákveðið vandamál skapaðist þegar þáverandi hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður K. Gunnarsdóttir liðkaði það mikið til í kerfinu að ungt fólk, sem náði að komast hratt í gegnum almenna skólakerfið og svo hratt í gegnum framhaldsskóla, átti ekki kost á að fá námslán á háskólastigi vegna þess að það var ekki orðið fjárráða. Þetta mál hefur tekið að því er mér skilst u.þ.b. tvö ár í vinnslu í ráðuneytinu og að komast í gegnum kerfið. Það er rétt að fagna því að verið sé að taka á því.

Ég vona svo sannarlega, hæstv. forseti, að ekki hafi verið mörg tilvik sem féllu milli skips og bryggju varðandi ungt fólk sem var í þessum sporum og náði ekki að fjármagna háskólanám sitt vegna þess að úrræði voru ekki fyrir hendi. Ég þekki til nokkurra slíkra dæma, en það er þó gott að verið sé að taka á málum.

Eins og ég sagði hér áðan varðandi annað mál er það okkar hlutverk að leiðrétta lögin. Það vekur ákveðnar spurningar þegar það tekur þennan tíma að koma breytingum sem þessum í gegn, hvort ekki þurfi að endurskoða með einhverjum hætti utanumhald um breytingar sem þessar, þ.e. að hlutirnir gangi alla leið þegar teknar eru ákvarðanir sem vissulega eru ívilnandi fyrir borgarana, í þessu tilviki ungt fólk, að það sé hugsað fyrir þeim málum alla leið. Það er sárt að vera búinn að ná öllum sínum markmiðum í námi en ná síðan ekki að framfylgja þeim vegna þess að hugsanlega stendur maður ekki vel fjárhagslega og á ekki sterka aðila að.