139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. formanni iðnaðarnefndar framsögu hans. Það eitt þekki ég til hans og hans starfa að hann er mjög áfram um að þetta mál gangi og nái fram. Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi þess fyrir alla aðila og hvaða tækifæri felast í því ef þetta getur orðið að veruleika.

Það vakti hins vegar gríðarlega athygli hér í vor þegar upp kom að þetta mál hafði einhvern veginn fallið á milli skips og bryggju, svo að við tölum mál sem við skiljum báðir, og gleymst, það var held ég eina skýringin á því. Þá langar mig að forvitnast hjá hv. formanni iðnaðarnefndar um hvort hann kunni á því skýringar af hverju svo fór, hvort í raun sé einhver grundvallarágreiningur milli stjórnarflokkanna í þessu máli sem hefur tafið það eða hvaða skýringar hann kunni á því að málið fór á þann hátt sem raun ber vitni.