139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að við séum loksins farin að ræða þetta mál hér og líklega ljúka því. Það er hægt að hafa nokkuð langt mál um hvernig til hefur tekist að koma þessum nauðsynlegu leiðréttingum áfram, það hefur gengið mjög illa og tekið allt of langan tíma. Það hreinlega klúðraðist í vor. Þetta er annað málið sem við ræðum í dag þar sem full samstaða var um að ljúka málinu í nefnd en einhvers staðar annars staðar í ferlinu klikkuðu ferlarnir hjá stjórnarliðinu og málið komst ekki á dagskrá. Á það reyndi aldrei hvort samstaða væri um að bæta því inn á síðustu dögum sem ég held að hefði verið vel hægt ef þess hefði verið óskað. Það var hins vegar ekki gert. Það voru önnur mál sem óskað var eftir að bæta á dagskrá þingsins sem var samstaða um og var það þá gert.

Ég treysti mér ekki til að fara í skýringar á orsökum þess að þetta fór svona. Því hefur verið haldið fram að annar stjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, sé í raun á móti málinu eða einstökum atriðum í því. Ef svo er þarf sá flokkur að útskýra það. Það er rétt sem kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar, allir nefndarmenn nema einn eru á þessu nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar.

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Kristjáni L. Möller, fyrir samstarfið við þessar lagfæringar. Það gekk bara ljómandi vel. Þegar við fjöllum hins vegar um þetta mál eins og önnur atvinnumál fer maður að velta mörgu fyrir sér. Kannski erum við stundum óraunsæ í þessum ræðustól eins og margir aðrir um hvernig hlutirnir geta gengið eða eiga að ganga fyrir sig. Mér hefur fundist þetta ferli varðandi olíuleitina ganga of hægt. Kannski er það vegna þess að mann er farið að lengja eftir því að hlutirnir skýrist með þessi tækifæri. Ég held því að við eigum að nota tækifærið nú þegar þetta annað útboð fer af stað, spýta í lófana og hraða þessu eins og hægt er. Það mun hraða endurreisn Íslands til lengri tíma litið því að auðvitað fáum við ekki aura í kassann einn, tveir og þrír þó að það finnist vísbendingar um gas eða olíu.

Þá vil ég koma að öðru sem ég hef áður nefnt í ræðustól og í nefnd, því hvort við stöndum rétt að þessu ferli. Ég hef verið á þeirri skoðun að það ætti að skoða það að semja við erlenda aðila um að sjá um þetta alfarið, Norðmenn, Kanadamenn eða einhverja aðra sem okkur líkar við. (Gripið fram í: Kínverja.) Kínverja, þess vegna, já. Við eigum gott samstarf við mörg ríki. Mörg okkar vilja eiga gott samstarf við öll þau ríki sem geta talist lýðræðisleg og virða mannréttindi. Auðvitað eru skiptar skoðanir um það hvar sú lína er dregin. Það þýðir ekki að við viljum útiloka Evrópusambandið. Þó að það sé lýðræðishalli í því vil ég endilega eiga góð samskipti við þau lönd.

Þetta var útúrdúr. Það sem ég ætlaði að koma inn á var að það kynni að hraða málum ef það yrði samið við ákveðna aðila um að gera þetta allt saman fyrir okkur. Við gætum hins vegar lært og fengið þekkingu í staðinn og að einhverjum árum liðnum þegar viðkomandi er búinn að fá sinn kostnað til baka kæmi þetta aftur til íslenska ríkisins. Þetta er samt umræða sem þarf að taka annars staðar en akkúrat hér, held ég. Ég vildi þó koma því á framfæri.

Frú forseti. Ég vona að þetta mál verði til þess að hraða þessu ferli. Ég óska jafnframt eftir því að hv. formaður iðnaðarnefndar beiti sér fyrir því að við fáum fljótlega upplýsingar í iðnaðarnefnd um olíuleitardæmið allt saman, hvaða verkefni eru í gangi og hvaða samstarfsverkefni. Bið ég hv. þingmann og formann iðnaðarnefndar að hafa það í huga þegar hann les þessa góðu ræðu sem ég er að halda núna því að ég efast um að hann heyri hana.

Frú forseti. Ég hef þetta ekki lengra. Ég styð þetta mál, að sjálfsögðu, og við þingmenn Framsóknarflokksins, og vona að það muni liðka til sem allra fyrst.