139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þær tafir sem urðu á þessu máli í vor voru auðvitað bagalegar og vöktu upp spurningar sem engin viðhlítandi svör fengust við í sjálfu sér. Maður veltir alltaf fyrir sér og fyllist ákveðinni tortryggni þegar atvinnumál almennt séð lenda í töfum í þinginu í dag miðað við reynslu okkar af störfum ríkisstjórnarinnar á þeim vettvangi. Þannig læddist að mér sá grunur að sú andstaða sem er í öðrum stjórnarflokknum við þetta mál ætti einhvern þátt í þessu en nú hefur a.m.k. tekist að koma málinu inn til lokaafgreiðslu í þinginu. Það er vel.

Við óskuðum eftir því, þingmenn minni hlutans í iðnaðarnefnd, þegar viðbrögð Orkustofnunar komu fram við því að málið var ekki afgreitt í vor að fundað yrði í nefndinni og farið yfir afleiðingar þess með Orkustofnun að þá yrði þing kallað saman til að klára þetta mál ef þurfa þætti. Ekki var orðið við þessari fundarbeiðni okkar og var í þeim efnum borið við ákvæði í þingsköpum þar sem segir að almennt skuli ekki funda í fastanefndum þingsins í júlí og byrjun ágúst nema brýna nauðsyn beri til. Okkur þótti miður að ekki var orðið við þessari ósk okkar. Við þekkjum að sjálfsögðu þingsköpin og fórum fram á þetta í ljósi viðbragða Orkustofnunar á þeim tíma. Við töldum ærna ástæðu til að nefndin kæmi saman og reifaði málið. Ég tek fram að formaður nefndarinnar hefur stýrt starfi hennar af skörungsskap og verið í sáttaumleitunum. Okkar samstarf hefur gengið mjög vel. Hann fór þá leið að hafa samband við Orkustofnun og sendi okkur síðan erindi. Það skýrði svo sem málið. Samstarfið í iðnaðarnefnd er þannig að þar er, held ég, í mörgum málum allt annar meiri hluti en ríkir í þinginu. (Gripið fram í.) Ég hef áður hvatt hv. þm. Kristján Möller og skoðanabræður hans í Samfylkingunni til að hugsa sinn gang í því hvernig þeir standa að því að sú vitleysa sem við verðum vitni að í þinginu, sérstaklega gagnvart atvinnumálum, geti haldið áfram. Þetta er auðvitað í þeirra höndum.

Þessi töf í sumar tafði málið um tvo, þrjá mánuði hjá Orkustofnun. Það er bagalegt. Tveir, þrír mánuðir eru þó svo sem ekki langur tími í öllu þessu langa ferli sem er að fara af stað.

Það er mjög mikilvægt að við afgreiðum þetta mál í þessum septemberstubbi. Ástæðan er ekki síst sú að samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun er rannsóknarleiðangur á svæðinu sem mun nýta ferðina til að gera ákveðnar rannsóknir á þessu umrædda svæði. Ef við misstum þennan rannsóknarleiðangur sem fer víðar um norðurhöf fram hjá í þessari atrennu yrði enn lengri töf í vændum.

Það er líka mjög mikilvægt að nýta það andrými sem er í leit að olíuauðlindum í heiminum í dag. Það er áhugi. Verð er hátt. Olíufyrirtæki hafa áhuga að kanna þetta svæði til hlítar og hefja e.t.v. vinnslu þar ef vel gengur. Það þarf náttúrlega ekki að fara mörgum orðum um það hversu gríðarleg áhrif slíkt hefði á þjóðarbúskap okkar ef þær grunsemdir, getum við sagt, eða sú von sem menn bera í brjósti reynist á rökum reist. Hún er svo sem studd ýmsum rökum um að þarna sé olíu að finna. Ekki síður má búast við að það hefði mikil áhrif á norðausturhorn landsins sem er kannski eitt af þeim svæðum sem hefur farið halloka, a.m.k. hluti af því svæði hefur farið halloka í byggðaþróun síðustu ára. Þar náum við mikilvægu skrefi í því að efla með öðrum atvinnugreinum byggðir landsins. Ég hef áður sagt að með breytingum á sínum tíma og þeim markmiðum sem sett voru fram með kvótakerfi í íslenskum sjávarútvegi var fyrirsjáanlegt að ef markmiðin næðust hefði það áhrif á hinar dreifðu byggðir sem byggðu afkomu sína að mestu leyti á sjávarútvegi. Sú hagræðing og sá mikli árangur sem náðst hefur í sjávarútvegi hefur átt þátt í byggðaþróuninni. Það þarf mun færri hendur nú til að vinna verkin en þurfti á árum áður, sem betur fer, og þess vegna skilar sjávarútvegur þjóðarbúinu svo miklu meiri afrakstri í dag en áður.

Á þessum tíma hafa stjórnvöld brugðist þeim skyldum sínum að horfa sérstaklega til landsbyggðarinnar í atvinnuuppbyggingu með það í huga að efla hana og stemma stigu við þeirri byggðaþróun sem hefur átt sér stað. Þarna verður stigið gríðarlega mikilvægt skref. Á þeim tíma sem rannsóknarvinnan og leitin mun standa yfir mun það strax hafa áhrif á þessar byggðir í þjónustu við þá miklu starfsemi sem er í kringum þetta.

Rétt til að nefna það hér, virðulegi forseti, vil ég segja að auðvitað er full ástæða fyrir okkur til að leita víðar fanga í þessum efnum og gera okkur grein fyrir því að þó að lagt sé af stað í leiðangur sem þennan eða aðra sambærilega leiðangra í uppbyggingu atvinnulífs gerast hlutirnir ekki á einni nóttu. Því höfum við sjálfstæðismenn talið mjög mikilvægt að teknar verði ákvarðanir um næstu virkjanir. Landsvirkjun hefur sett fram mjög metnaðarfulla framkvæmdaáætlun til tíu ára sem verður þjóðarbúinu mjög hagfelld, gerir það að verkum ef áætlanir þeirra ganga eftir að framlag Landsvirkjunar til þjóðarbúsins geti orðið á annað hundrað milljarða á ári sem er sambærilegt sem hlutfall af landsframleiðslu og norski olíusjóðurinn greiðir til norska ríkisins. Tækifærin eru til staðar fyrir okkur þarna líka.

Nú liggja fyrir drög að rammaáætlun. Þar er samstaða um augljósa virkjunarkosti eins og í neðri hluta Þjórsár. Það er mikilvægt að bíða ekki eftir því ákvæði sem er í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar um að hefja engar framkvæmdir eða taka engar ákvarðanir fyrr en vinnu við rammaáætlun er lokið. Það er fullt tilefni til að bregða frá því og taka ákvarðanir strax í samráði við Landsvirkjun um að hefja orkuvinnslu eða uppbyggingu virkjana í neðri hluta Þjórsár.

Það er eins með þau verkefni og þau sem við erum að ræða hér, þau taka langan tíma. Það gerist ekkert á einni nóttu þó að vissulega muni það strax fara að hafa jákvæð áhrif. Bæði blæs það okkur von í brjóst og skapar auðvitað vinnu frá fyrsta degi þó að hún muni síðan stigmagnast eftir því sem fram líða stundir.

Það eru tækifæri víðar í mögulegri olíuvinnslu á Íslandi. Við þurfum auðvitað að horfa til þeirra svæða líka. Það eru jafnvel til svæði sem liggja mun nær landi en Drekasvæðið. Það er full ástæða til að horfa til þeirra strax. Um það hafa meðal annars sjálfstæðismenn lagt fram tillögu í þinginu. Ég hefði kosið að það mál kæmi þá fram strax í byrjun næsta þings og reynt yrði að leiða það til lykta með sömu niðurstöðu og hér sem og sömu vinnubrögðum þar sem nokkuð víðtæk sátt hefur verið í nefndinni.

Umsagnir um þetta frumvarp voru svo sem ekki stórkostlegar. Af því má draga þá ályktun að það sé nokkuð almenn sátt um að fara þessa leið. Náttúrufræðistofnun gerir til dæmis engar athugasemdir við frumvarpið. Athugasemdir frá Orkustofnun og Samtökum iðnaðarins fjalla ekki um mikinn eða stóran ágreining um þetta mál. Allir aðilar fagna því að þetta skref skuli vera stigið og bera væntingar til þess að þetta geti orðið til þess að efla íslenskt efnahags- og atvinnulíf til framtíðar. Það væri stórkostleg viðbót inn í flóru nýtingar orkuauðlinda landsins sem er auðvitað grunnurinn að því að byggja hér upp velferðarsamfélag.

Ég sagði í ræðu hér fyrr í dag að það væri mikilvægt að stíga þetta skref, það væri gæfa þessarar þjóðar að sú stefna hefði orðið ofan á fyrir 50 árum. Þessi barátta hófst meðal annars þegar Bjarni heitinn Benediktsson sagði 1961, held ég að það hafi verið, í ræðu að þarna lægju stórkostleg tækifæri í orkunýtingunni en um það væri ágreiningur og að orðið stóriðja hljómaði illa í eyrum margra þó að það virkaði vel á aðra. Þarna var slagurinn byrjaður, fyrir 50 árum. Það er gæfa íslenskrar þjóðar að ekki urðu ofan á þau kommúnísku viðhorf sem þá réðu ferðinni og ráða í raun enn ferðinni í dag hjá þeim fámenna hópi í samfélaginu sem leggst gegn almennri nýtingu á orkuauðlindum landsins. Þannig höfum við náð að byggja upp fjölbreyttari grunn undir atvinnustarfsemi okkar, grunn sem stendur miklu sterkari fótum en þegar við þurftum að reiða okkur eingöngu á sjávarútveg, fiskveiðar og sölu sjávarafurða.

Það er okkur nauðsynlegt að halda áfram á þessari braut. Stoðirnar hafa verið að styrkjast og þeim hefur fjölgað. Ferðaþjónustan er orðin ein af okkar sterku stoðum. Vonandi getur olíuvinnsla í framtíðinni orðið það líka.

Hjá Orkustofnun kom fram að samkvæmt skilgreiningu leyfishafa á ákveðnum greinum laganna væri verið að leggja íþyngjandi kröfur á herðar leitarleyfishafa hvað varðar skattlagningu og skráningarskyldu og að það væri í engu samræmi við eðli þeirra framkvæmda. Nefndin tók undir þessi sjónarmið og uppi hafa verið ýmis vandkvæði um skattlagningu leyfishafa, en leyfishafi hefur verið skilgreindur sem skráður aðili hér á landi sem hefur fengið leyfi til leitar, rannsókna og/eða vinnslu kolvetnis.

Nefndin bendir einnig á að frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna skattlagningar og kolvetnisvinnslu er til meðferðar hjá efnahags- og skattanefnd Alþingis. Þar verða gerðar þær breytingar að skattskyldar tekjur skapist eingöngu af starfsemi sem bundin er við sérleyfi en ekki við leyfishafa. Nefndin tekur undir þessar breytingar og vill árétta varðandi skráningu leyfishafa að ekki er talin ástæða til að gera þá kröfu að aðili sem fær leyfi til leitar samkvæmt III. kafla laganna sé skráður aðili hér á landi.

Í gildandi löggjöf um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis er mælt fyrir um kolvetnisstarfsemi og að tengd starfsemi skuli rekin frá stöð á Íslandi. Stjórnvöld hér á landi hafa staðið í þeirri trú að ákvæðið rúmaðist innan þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland er bundið af þar sem ákvæðið miði fyrst og fremst að því að tryggja öryggi og almannahagsmuni. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur hins vegar nýverið með bréfi til íslenskra stjórnvalda bent á að framangreint ákvæði feli í sér brot á skuldbindingum okkar að EES-rétti, nánar tiltekið að það eigi að vera hægt að veita þessa þjónustu frá stöð sem staðsett er innan Evrópska efnahagssvæðisins en ekki megi skuldbinda þjónustuna alfarið við Ísland. ESA hefur sent sams konar athugasemd til Norðmanna sem hafa fallist á að gera breytingar á þessu lagaskilyrði og nefndin bendir á að þær breytingar sem hér eru lagðar til taka mið af tillögum Norðmanna sem ESA hefur þegar samþykkt.

Ég held að ég sé búinn að fara yfir þetta að mestu leyti, virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið fram og verði þá væntanlega leitt til lykta á þessu þingi. Hér erum við með dæmi um mál þar sem þeim hluta ríkisstjórnarflokkanna sem er hlynntur nýtingu orkuauðlindanna hefur tekist að ná sínu fram. Því fagna ég. Ég man ekki eftir öðru dæmi í sjálfu sér. Jú, þau eru kannski til eins og í kringum gagnaverin. Þar ætluðu sömu öfl að leggja stein í götu starfseminnar en bökkuðu síðan þegar þeim varð ljóst að hér á þingi ætlaði meiri hlutinn sem er hlynntur þessari stefnu að ná sínu fram.

Ég vil nota tækifærið enn og aftur og hvetja þá þingmenn stjórnarflokkanna sem eru þessa sinnis, sem vilja sjá skynsamlega nýtingu orkuauðlindanna verða til þess að ná Íslandi úr þeim erfiðu aðstæðum sem við erum í, til að beita sér frekar með þeim hætti sem hér hefur verið gert og með þeim hætti sem var gert í málinu um gagnaverin. Við höfðum okkar þar í gegn. Það sýnir okkur mikilvægi þess að sá mikli meiri hluti sem er á þingi fyrir því að við höldum áfram á þessari braut fái að ráða. Það er eðlilegt, það er í anda lýðræðis og gagnsæis að fámennur hópur geti ekki haldið þinginu í gíslingu í svona mikilvægum málum.