139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[15:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var fróðleg ræða. Sum viðhorf hv. þingmanns hafa komið fram áður og ég ætla ekki að fjalla beinlínis um þau.

Það er athyglisvert að við hv. þm. Pétur Blöndal erum sammála um þá stefnu að ekki eigi að koma fleiri álver á Ísland þó að rökin séu kannski ofurlítið ólík hjá okkur. Mér þótti líka athyglisvert að heyra hann nefna umhverfishættuna sem getur stafað af hugsanlegri olíuvinnslu fyrir norðan land og þó austan. Þetta er rétt, það er þannig, og það er athyglisvert og merkilegt fyrir okkur að horfa upp á það að í Noregi eru menn að ræða það í fullri alvöru hvort Norðmenn eigi að halda áfram olíu- og gasvinnslu norður af sínu landi. Menn ræða það annars vegar vegna hinnar miklu áhættu af umhverfisslysi sem hv. þingmaður sagði réttilega að gæti valdið miklu verri áhrifum á norðurslóðum en það gerði þó annars staðar og hins vegar vegna þess að Norðmenn eru frá fornu fari, liggur mér við að segja — áður en við vissum að þessi málaflokkur væri til voru þeir orðnir umhverfisverndarmenn og umhverfisáhugamenn. Sumir þeirra segja ósköp einfaldlega að nú sé komið nóg af þessari vinnslu, nú skulum við hætta þessu vegna þess að það er þegar of mikil olíu- og kolabrennsla í heiminum.

Ég fylgist með þessum skoðanaskiptum í Noregi og treysti því að meiri hluti iðnaðarnefndar, hv. þm. Kristján Möller, Kristján Þór Júlíusson, Jón Gunnarsson og fleiri kappar á iðnaðarsviði, hafi gengið það tryggilega frá þessum málum að ekki sé hætta á umhverfisslysum. Hins vegar er óvíst hvort þetta hefur eitthvað upp á sig. Ég tel að við eigum að athuga það en auðvitað þarf að halda þeirri umræðu áfram sem hv. þm. Pétur Blöndal vakti hér.