139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[15:33]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég get svarað fyrir hönd umhverfisnefndar þann tíma sem ég hef setið í henni, í fyrsta lagi frá 2003–2007 og síðan frá fyrra hausti. Þessi mál hafa ekki verið þar í umræðu, en það er örugglega alveg þess virði að velta þeim fyrir sér. Ég verð að treysta því að um þessa leit sé þannig búið að ekki verði þar umhverfisslys eða það verði þá að minnsta kosti bætt. Við vorum að skila áliti um frumvarp um umhverfisábyrgð sem agar þann lagaramma sem mengandi atvinnustarfsemi býr við gagnvart náttúrunni og umhverfi fólks.

Spurning er um álver í Kína eða á Íslandi. Auðvitað væri merkilegt að ræða það í umhverfisnefnd. Ég hygg þó að á núverandi stigi í samvinnu mannfólksins á jörðunni mundu Kínverjar því miður ekki taka mjög mikið mark á því ef við lýstum því yfir að við ætluðum að byggja hér þau álver sem þeir ætla að byggja hjá sér. Það er hætt við því að kannski yrði ekki mikill sparnaður að lokum af hinni ágætu röksemd hv. þingmanns.