139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[15:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki í þessu stutta andsvari að fara djúpt í umræður um actio popularis og hugsanlega kosti þess og hugsanlega galla, ég verð að koma inn á það síðar. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hv. formaður umhverfisnefndar geti deilt með okkur nánar sjónarmiðum um hvort hann telji að hin almenna kæruaðild, þ.e. sú útvíkkun á kæruaðild sem vissulega felst í frumvarpinu, sé líkleg til að fjölga kærum, þ.e. fjölga þeim erindum sem væntanleg úrskurðarnefnd þarf að fást við, og hvort hann telji þær áhyggjur raunhæfar sem fram koma af hálfu margra umsagnaraðila, um að úrskurðarnefnd verði einfaldlega í tilteknum umdeildum málum drekkt í kæruflóði, þannig að menn, andstæðingar tiltekinna framkvæmda, muni beita þeirri aðferð að gera ekki aðeins efnislegar athugasemdir við framkvæmdirnar heldur líka valda stjórnsýslulegri teppu með fjölda kæra. Hefur hann engar áhyggjur af því? Um leið vildi ég inna hann aðeins nánar eftir því, nánar en fram kom í framsöguræðu hans, að hvaða leyti var í undirbúningi málsins horft til löggjafar á þessu sviði í þeim löndum sem eru líkust okkur að lagahefð og réttarskipan.