139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. formaður umhverfisnefndar séum sammála um það, þó að við séum ósammála um niðurstöðu málsins, að sú leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi innleiðingu Árósasamningsins sé allróttæk miðað við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Sú leið er valin í frumvarpinu og studd af meiri hluta umhverfisnefndar að ganga mjög langt í því að opna kæruaðild miðað við það sem gerist í öðrum aðildarríkjum samningsins. Við höfum ákveðnar upplýsingar um hvernig réttarástand er í öðrum löndum og mér virðist, og tel ekki að um það þurfi að vera ágreiningur, að hér sé gengið býsna langt miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum. Ég held að ekki sé heldur ágreiningur um að gengið sé lengra en annars staðar á Norðurlöndunum sem eru þau lönd sem búa við líkasta réttarskipan og réttarhefð og lagafyrirkomulag og við.

Ég varpa því fram til hv. formanns nefndarinnar hvort honum sé kunnugt um að það hafi verið skoðað, annaðhvort af hálfu ráðuneytisins eða meiri hluta umhverfisnefndar, hvers vegna þessi nágrannalönd okkar, sem vissulega hafa innleitt þennan samning á undan okkur, hafi ekki gengið svona langt, því að eins og hv. formaður umhverfisnefndar veit hafa umhverfismál verið mjög ofarlega á baugi í þessum löndum um langt skeið.

Þá spyr maður: Hvers vegna hefur ekki verið gengið svona langt? Væntanlega eru fyrir því einhver rök. Ég spyr sem þingmaður og nefndarmaður í umhverfisnefnd: Höfum við upplýsingar um þetta þegar við afgreiðum þetta mál? Væri ekki gagn af því fyrir okkur þingmenn að hafa upplýsingar um slíkt áður en við tökum afstöðu til máls af þessu tagi?