139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég spyr hv. þm. Mörð Árnason: Hvernig stendur á því að það er eitt sameiginlegt nefndarálit um bæði málin? Af hverju var ekki komið með tvö nefndarálit? Mér finnst það vera mjög ruglandi fyrir þá sem um þetta fjalla og sýna í rauninni flutningsmanni frumvarpanna, hæstv. umhverfisráðherra, lítilsvirðingu. Frumvörpin eru að sumu leyti eðlislík en að öðru leyti mjög ólík vegna þess að úrskurðarnefndin verður gífurlega valdamikil og ég vildi gjarnan ræða hana alveg sérstaklega. Svo eru málin rædd sameiginlega í þingsal, sem mér finnst auka enn á ruglinginn. Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin varðar nefndarskipan í úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, hún er mjög skrýtin. Fyrst virðist vera kosinn einn maður sem á að vera formaður. Hann tilnefnir svo varaformanninn. Ég hef aldrei kynnst svona. Í frumvarpinu átti hann meira að segja að ráða varaformann og varamann sinn. Það er mjög undarleg skipan mála og ég hef miklar efasemdir um það. Það virðist vera að þessir tveir menn, þ.e. formaður og varaformaður, eigi að mynda ákveðna valdablokk sem keyri öll mál í gegn. Svo skipa þeir undirhópa, þrjá til fimm menn í hverju máli, og alltaf skal formaðurinn sitja í þeirri undirnefnd. Og af því að hann skipar varaformanninn getur hann sett þá með sér í þriggja manna ráð og þá ráða þeir tveir, formaður og varaformaður, öllu. Mér finnst það vera mjög ólýðræðislegt, fyrir utan háskóladekrið, að það skuli allir nefndarmenn vera háskólamenn. Hvers vegna í ósköpunum?