139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Háskólamenntun er ágæt svo langt sem hún nær. Ég hef slíka menntun og það hefur ekki skaðað mig. Hins vegar er fjöldi fólks í þessu þjóðfélagi sjálfmenntaður og hefur ekki síður dómgreind en háskólamenn, fyrir utan það að menn stunda alls konar nám og ljúka kannski ekki háskólanámi. Ég held meira að segja að Jón Sigurðsson hafi aldrei lokið háskólanámi og þykir hann ágætur samt. Þetta dekur við háskólatitla þykir mér vera slæmt.

Nefndarskipanin er mjög sérstök. Fyrst skipar hæstv. umhverfisráðherra einn mann, konu, sem á að vera formaður. Síðan skipar hann annan mann að tilnefningu þess fyrsta þannig að það hangir mjög vel saman. Ég geri ráð fyrir því að þessir menn verði alltaf mjög nánir, eins og samloka. Forstöðumaður úrskurðarnefndar, sem er þá formaðurinn — hann er bæði formaður og forstöðumaður — virðist eiga að stjórna skrifstofunni fyrir utan það að vera formaður nefndarinnar. Hann hefur yfirstjórn hennar með höndum. Hann skipar nefndarmenn til að úrskurða í einstökum málum og hann skal alltaf sitja þar sjálfur. Hann getur því fengið varamann sinn með sér í alla úrskurði. Ég ætla ekki að fjalla um hvað þeir geta orðið einsleitir og bundnir ákveðnum einsleitum skoðunum, því að þriðji maðurinn hefur þá ekkert að segja.

Mér finnst það ekki vera skynsamleg uppbygging og vona, ef það verður niðurstaðan, að það leiði ekki til einhverra leiðinda.