139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Samkvæmt breytingartillögu okkar skipar sem sé umhverfisráðherra einn mann en ekki fleiri, þó að undangenginni auglýsingu þannig að það er ekki pólitísk ráðning heldur háfagleg. Ekki koma aðrir ráðherrar að eins og gert var ráð fyrir af einhverjum ástæðum í upphaflega frumvarpinu og ég tel vera ljóð á ráði þeirra sem það sömdu.

Um hitt atriðið er það að segja að ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal um að mér finnst vera áberandi menntablæti í samfélaginu, að menn geri einhverja nánast sjálfsagða kröfu til þess að enginn geti aðhafst neitt nema hann hafi nákvæmlega þá menntun sem búin hefur verið til handa þeirri stöðu eða í það mál. Ég tek undir það að sjálfmenntaðir eða ómenntaðir menn á veraldlega vegu geti sinnt mjög mörgum störfum og jafnvel betur en hinir menntuðu. Þannig hefur það nú lengi verið á Íslandi.

Aftur á móti er bara þetta klassíska að þegar maður sest upp í flugvél vill maður að flugmaðurinn hafi flugpróf. Það er sú tilfinning sem ég hef fyrir úrskurðarnefndinni, að þar eigi að sitja gagnmenntaðir menn og þá menntun sem þeir þurfa fá þeir hvergi annars staðar en í háskóla.