139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðu hans og eins vil ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ræðu hans áðan. Ég komst því miður ekki upp til þess að fara í andsvar við hann en ég vildi þakka honum fyrir hans ágætu ræðu.

Það er ýmislegt í frumvarpinu sem sá er hér stendur gerir athugasemdir við og sérstaklega það sem snýr að kæruréttinum. Margt annað þarna er held ég í lagi og til að skýra hlutina. Ég vil þó spyrja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hvort ég skilji þá meiningu frumvarpsins rétt, að það sé virkilega þannig að einhver ágætur maður sem býr á Jótlandi geti lagt inn kæru vegna framkvæmda eða einhvers slíks sem er fyrirhugað eða komið á það stig sem kveðið er á um í frumvarpinu. Ef það er ekki þannig — mér finnst nokkuð langt gengið ef það er svoleiðis — get ég, samkvæmt frumvarpinu, án þess að hafa nokkrar beinar tengingar eða hagsmuni, gert athugasemdir og lagt inn kæru ef mér finnst að eitthvert umhverfismat sem verið er að vinna eigi að vera sameiginlegt? Ef það á að vera sameiginlegt umhverfismat á einum stað, get ég þá lagt inn kæru um það samkvæmt 4. grein? Ef ég er á þeirri skoðun að Skipulagsstofnun eigi að ákveða að sameiginlegt umhverfismat skuli fara fram — ég nefni t.d. Þeistareyki eða hvað það nú var á sínum tíma fyrir austan — er það þá þannig að ég eða einhver úr minni fjölskyldu sem er jafnvel á móti slíkum framkvæmdum geti kært?