139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina en hann spurði mig ýmissa spurninga sem er í rauninni meiri hlutans að svara, um hvers vegna þetta væri svona. Ég leyfi mér að svara með þeim hætti að það er pólitískur skoðanamunur og ágreiningur á milli okkar í nefndinni um hversu langt eigi að ganga. Við höfum haldið því fram, fulltrúar minni hlutans, að þessi almenna kæruheimild sé svo víðfeðm að okkur beri í rauninni að leggja betur mat á þörfina fyrir því að gera þetta og áhrifin af slíkri innleiðingu. En pólitíska rétthugsunin er með þeim hætti að þetta er ákvörðun meiri hluta á ákveðnum pólitískum grunni og við það situr. Maður getur verið missáttur eða ósáttur við það.

Ég ráðlegg hv. þingmanni endilega að kæra Portúgala, að láta bara reyna á þetta. Ég er ekki í stakk búinn til að svara því hvort þetta sé nákvæmlega með sama hætti í Portúgal vegna þess að við höfum ekkert rannsakað það sérstaklega.

Ég veit ekki og get ekki svarað því hvort hér sé um að ræða mismunun með því að gera kröfu um að kærurnar séu á íslensku. Ég held að það hljóti að styðjast við einhver lög og það má þá benda mönnum á hinn ágæta hr. Google um aðstoð við að reyna að koma kærum sínum í eitthvert skiljanlegt form.

Svo ég svari því líka rétt í lokin þá hef ég ekki áhyggjur af því að erlendir ferðamenn muni sitja í Leifsstöð og hripa niður kæru. Þetta er þó ákveðið ferli, ákveðið stig í framkvæmdum sem rétturinn til kærunnar kemur fram og mér er til efs að erlendir ferðamenn verði mjög vel að sér í einstökum stigum framkvæmda hér á landi.